Erlent

Innrásin sem markaði upphafið að síðari heimsstyrjöldinni

Birta Björnsdóttir skrifar
Rétt fyrir klukkan sex að morgni 1.september árið 1939 hófu skipverjar á Schleswig-Holstein skotárás á borgina Gdansk. Í kjölfarið þrömmuðu svo þýskar hersveitir yfir landamærin inn í Pólland, en innrás hersveita Nasista er talin marka upphaf síðari heimsstyrjaldarinnar.

„Ég var átta ára þá. Og móðir mín, sem heyrði þessar fréttir með systur sinni, sagði við hana: „Þetta getur ekki verið satt”,” segir Joahim Fulczyk, íbúi Gliwice.

Atburðarásina í kjölfarið þekkja flestir, en Bretar og Frakkar lýstu yfir stríði á hendur Þjóðverjum tveimur dögum eftir innrásina.

Hildarleikurinn stóð yfir í næstum sex ár, um 110 milljónir manna frá 72 þjóðlöndum tóku þátt í blóðugum bardögum fyrir friði í Evrópu og talið er að á bilinu 45 til 60 milljónir manna hafi týnt lífi.

Adolf Hitler hafði í aðdraganda innrásarinnar styrkt stöðu sína all verulega í Evrópu, meðal annars með því að innlima Tékkland og Austurríki undir Þriðja ríki nasistanna. Ýmis teikn voru því á lofti árið 1939 og hétu Frakkar og Bretar Pólverjum liðveislu, myndu nasistar ráðast á þá. Í lok ágúst sama ár gerðu Þjóðverjar og Sovétmenn hinsvegar með sér samning þar sem þjóðirnar ákváðu að skipta Póllandi með sér og í kjölfarið tók Hilter ákvörðun um að ráðast inn í landið.

„Ögrunin hafði tilætluð áhrif í þýskum áróðri því Hitler leitaði að afsökun, ekki staðreyndum, sem gæti réttlætt innrás í Pólland. Og hann leitaði að afsökun til að réttlæta árásina í augum eigin samfélags sem, þrátt fyrir almennt aðra skoðun, var ekki fullkomlega sannfært, sérstaklega í Sílesíu, að það yrði að ráðast á Pólland,” sagði sagnfræðingurinn Damian Reclaw.

Donald Tusk, forsetisráðherra Póllands, sagði við minningarathöfn í dag að Evrópubúar verði að læra af sögunni, til að hún endurtaki sig ekki, og vísaði þar til átakanna sem nú geysa í austurhluta Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×