Innlent

Innistæðutryggingakerfið ekki hannað fyrir kerfishrun

Fjármálaráðherra Hollands tekur undir það sem talin eru ein helstu rök fyrir því að Íslendingum beri ekki lagaleg skylda til að taka á sig Icesave skuldbindinguna. Í ræðu fyrr á þessu ári sagði hann að evrópska innistæðutryggingakerfið hafi ekki verið hannað til að takast á við kerfishrun heldur einungis fall eins banka.

Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, flutti ræðu um fjármálakreppuna á ráðstefnu í mars á þessu ári en hana má finna á vef hollenska fjármálaráðuneytisins. Í ræðunni vék hann meðal annars að evrópska innistæðutryggingakerfinu. Í ræðunni segir orðrétt:

Evrópulönd þurfa að skoða gaumgæfilega hvernig innistæðutryggingakerfið er uppbyggt. Það var ekki hannað til að takast á við kerfishrun heldur einungis við fall einstaka banka.

Svipuð túlkun kom fram í skýrslu sem franski seðlabankinn gaf út árið 2000. Þá eru þessi ummæli í takti við túlkun nokkurra íslenskra lögfræðinga á tilskipun Evrópusambandsins um innistæðutryggingar.

Það verður vart um það deilt að á Íslandi varð kerfishrun banka í október í fyrra.

Rök sem þessi hafa því oft heyrst áður en það sem vekur athygli er að hér er það einn helsti viðsemjandi Íslendinga sem viðurkennir meinta galla innistæðutryggingakerfisins.

Þremur mánuðum eftir þessi ummæli Wouter Bos skrifuðu hollensk stjórnvöld undir samkomulag við íslensk stjórnvöld um Icesave skuldbindinguna.

Hollenski fjármálaráðherrann tekur með ummælunum undir það sem talin eru helstu lagalegu rök Íslendinga í Icesave málinu. Samt sem áður sækist hann hart eftir því að þjóðin viðurkenni lagalega ábyrgð á innistæðunum.

Önnur umræða um ríkisábyrgð vegna Icesave-skuldbindinganna hefur staðið yfir á Alþingi síðan í morgun og óljóst er hvenær henni líkur.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×