Innlent

Illugi opinn fyrir meiri einkavæðingu í skólakerfinu

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Illugi sagði að ef launahækkun kennara yrði sambærileg og hækkunin í kjarasamningunum væri útlit fyrir langar samningaviðræður.
Illugi sagði að ef launahækkun kennara yrði sambærileg og hækkunin í kjarasamningunum væri útlit fyrir langar samningaviðræður. Vísir/GVA
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra er opinn fyrir frekari einkavæðingu í íslensku skólakerfi. Þetta kom fram í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Ráðherrann var spurður að, í ljósi þess að kennarar í Verzlunarskóla Íslands væru með tíu prósent hærri laun en aðrir kennararar, hvort það ætti að stuðla að frekari einkavæðingu í skólakerfinu.

„Við eigum að vera opin fyrir öllum möguleikum á slíku,“ svaraði Illugi. Hann ræddi mismunandi rekstararform á menntastofnunum og sagði: „Það er rými fyrir meiri fjölbreytni í okkar skólakerfi.“

Hann ræddi um ánægjuna með Hjallastefnuna í grunnskólakerfinu og sagðist vilja skoða hvort ekki væri hægt að auka tækifærin fyrir slíkan rekstur á framhaldsskólastiginu. Hann sagði að í samanburði við hin Norðurlöndin kæmi í ljós að mun lægra hlutfall af nemendum væru í einkareknum skólum hér á landi en annars staðar.

Laun kennara hækki umfram aðra

Illugi var spurður út í kennaraverkfallið og hugsanlegar launahækkanir framhaldsskólakennara. Hann vildi ekki gefa upp neitt um hversu mikið ríkið væri tilbúinn að hækka laun kennara. Hann gaf þó sterklega í skyn að launahækkunin yrði meiri en í kjarasamningum sem voru undirritaðir í desember.

Hann sagði að ef launahækkun kennara yrði sambærileg og hækkunin í kjarasamningunum væri útlit fyrir langar samningaviðræður.

„Ég tel að það sé mikið tilvinnandi að við getum hækkað laun kennara,“ sagði Illugi.

Kerfisbreyting skapar svigrúm til hækkana

Ráðherrann sagði kerfisbreytingu á framhaldsskólakerfinu vera mikilvæga forsendu launahækkana. Hann sagði kerfi þar sem yfir helmingur nemenda klárar ekki nám á tilsettum tíma ekki vera í lagi.

„Lausnin er að við sameinumst um það að við getum breytt kerfinu,“ sagði Illugi.

„Með því að fjölga þeim nemendum sem klára á tilsettum tíma, erum við að nýta fjármagnið betur og þar með skapast svigrúm til hækkana,“ sagði Illugi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×