Innlent

Ikea gæti átt í Hörpuhóteli

Dótturfélag sænska húsgagnaframleiðandans Ikea gæti orðið einn eigenda fyrirhugaðs hótels sem reisa á við hlið Hörpu, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Félagið ier í samstarfi við World Leisure Investment, sem keypti byggingarréttinn á lóðinni við hlið Hörpu, um að fjárfesta í hundrað hótelum í öllum helstu borgum Evrópu. Það sem aðallega hefur staðið í vegi fyrir aðkomu Ikea að byggingu hótelsins við Hörpu er að Ikea-samstæðan heimilar ekki fjárfestingar á Íslandi.

Pétur J. Eiríksson, stjórnarformaður Portusar eignarhaldsfélags Hörpu, staðfestir að Inter Hospitality Holding, dótturfélag Inter Ikea Holding, sé í samstarfi við World Leisure í þessu verkefni. „Ég get hins vegar ekki staðfest að þeir verði inni í verkefninu í Reykjavík," segir Pétur.

Lítið er vitað um World Leisure annað en að það er vettvangur þar sem fjölmargir fjárfestar leggja sameiginlega til fé til fjárfestinga í hótel- eða ferðaiðnaði. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins eru efnaðir einstaklingar frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Persaflóa á meðal þeirra sem leggja fé inn í félagið. Þeir fjárfestar sem standa að World Leisure nýta vettvanginn til að finna fjárfestingatækifæri, annast skipulag framkvæmdarinnar og til að sinna annarri þróunarvinnu.

Í kjölfarið skipta þeir fjárfestingunum á milli sín og fá oft og tíðum inn aðra samstarfsaðila. Í þessu verkefni hefur samstarfsaðili World Leisure verið Marriott-hótelkeðjan.

Ikea lýsti því yfir fyrr í þessum mánuði að samstæðan ætlaði að byggja yfir hundrað hótel í Evrópu á næstu árum. Alls áætlar Ikea að setja um 150 milljarða króna í það verkefni. Ódýrt á að vera að gista á þessum hótelum og stefnt er að því að þau verði öll miðsvæðis í helstu borgum Evrópu. Ikea ætlar ekki að reka hótelin sjálf og þau verða ekki rekin undir nafni sænska húsgagnaframleiðandans.

– þsj /



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×