Erlent

Íhuga að senda fleiri hermenn til Sýrlands

Samúel Karl Ólason skrifar
Ash Carter, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Ash Carter, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Vísir/AFP
Yfirvöld í Bandaríkjunum íhuga nú að senda fleiri hermenn til Sýrlands til að berjast gegn Íslamska ríkinu. Um 50 sérsveitarmenn eru nú staddir þar, en lítið er vitað um hvert hlutverk þeirra sé þar og verjast yfirvöld allra fregna.

Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Ash Carter, segir þá koma að því að velja skotmörk til loftárása. Samkvæmt heimildum AFP fréttaveitunnar er tilgangur þess að senda fleiri hermenn að bæta getu þeirra þar í landi.

Bandaríkin hafa sagt að ekki komi til greina að senda marga almenna hermenn til Sýrlands, en segja mikilvægt að sérsveitarmenn starfi með uppreisnarhópum þar í landi í baráttunni gegn ISIS. Þá er einnig til skoðunar að fjölga bandarískum hermönnum í Írak.

Þar eru nú um 3.900 hermenn.

Rússar hafa einnig gefið út að þeir hafi sent sérsveitarmenn til Sýrlands, sem berjist með stjórnarher Bashar al-Assad.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×