Skoðun

Icesave og Guðni Th. Jóhannesson

Jón Valur Jensson skrifar
Gjör rétt, þol ei órétt“ (Jón Sigurðsson forseti).

Guðni studdi Svavarssamninginn svo snemma sem 19. júní 2009, sagði þá í blaðinu Grapevine: „Það getur verið að okkur líki Icesave-samningurinn illa, en hinn kosturinn er miklu verri og kannski er þetta það bezta sem við eða einhver annar gæti fengið.“

Hér eru orð Guðna Th. á frummálinu, svo að enginn velkist í vafa um þá vanhugsun sem fólgin var í meðmælum hans með þeim stórháskalega samningi sem m.a. gaf Bretum fullt dómsvald um öll ágreiningsefni um samninginn og um afleiðingar þess að við gætum ekki staðið við hann (þær afleiðingar gátu m.a. verið stórfelld upptaka ríkiseigna); en Guðni talar: „We might not like the Icesave deal, but the alternative is much worse, and maybe this is the best we or anyone else could get.“

Alveg er makalaust að á framboðsvori 2016 hefur okkar sami Guðni bent ásakandi fingri á Ólaf Ragnar Grímsson með þeim orðum að hann hafi skrifað undir Icesave-samninginn síðsumars 2009.

Hver er Guðni að gagnrýna forsetann? Sjálfur var hann gagnrýnislaus meðmælandi upphaflega Svavarssamningsins. Skilmálalaust mælti hann með honum, sagði aðra valkosti „miklu verri“!

En stjórnarandstaðan á Alþingi 2009 sætti sig ekki við þann smánarsamning og vann að því ötullega að skeyta við hann ýtarlegum fyrirvörum sem drógu svo úr gildi hans fyrir Breta og Hollendinga, að þeir urðu alls ófúsir til að meðtaka hann í slíkri mynd; ekki lagaðist málið fyrir þá, þegar forsetinn hnykkti á þessu við undirritun laganna 2. sept. 2009 með sérstakri áritaðri tilvísun til fyrirvara Alþingis.

Niðurstaðan er einföld: Svavar Gestsson, Steingrímur J., Jóhanna og Össur flögguðu sínum óbreytta Svavarssamningi við Breta og Hollendinga. Guðni Th. (yfirlýstur femínisti) var þeim sammála á sjálfum hátíðisdegi kvenna 19. júní, með hans orðum: „kannski er þetta það bezta sem við eða einhver annar gæti fengið,“ um leið og hann tók fram, til að hafa þetta alveg á hreinu, að aðrir kostir væru „miklu verri“.

Hefði þetta fólk fengið að ráða, hefðum við aldrei fengið að sjá sýknudóminn sem kveðinn var upp í EFTA-réttinum 28. janúar 2013.

Nær engin árvekni

Árvekni Guðna var nánast engin: Í sama Grapevine 19.6. 2009 dró hann upp kolsvarta mynd: „augljóslega, ef Ísland myndi segja, að við ætluðum ekki að samþykkja þetta [Icesave-samninginn], þá myndi það gera okkur nánast eins einangruð og Norður-Kóreu eða Búrma (obviously, if Iceland were going to say, we´re not going to accept this, that would pretty much make us as isolated as countries as North Korea or Myanmar).“ Þvílík hrakspá! Þurfum við á slíkri spásagnargáfu að halda á Bessastöðum?

Hann greiddi Buchheit-samningnum atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslunni 9. apríl 2011, lýsti því sjálfur yfir og reyndi eftir á að skýla sér á bak við að 40% kjósenda hefðu kosið eins og hann! Ekki líktist hann þá Jóni Sigurðssyni sem vildi „eigi víkja“ frá rétti okkar. Leiðtogar eiga að vera leiðandi kjarkmenn sem standa með rétti þjóðar þegar að honum er sótt.

Samningsleg viðurkenning

Einnig Buchheit-samningurinn fól í sér samningslega viðurkenningu Jóhönnustjórnar á því, að íslenzka ríkið hefði verið í órétti í Icesave-málinu (þvert gegn öllum staðreyndum um lagalega réttarstöðu okkar skv. tilskipun ESB 94/19/EC og innfærslu hennar í ísl. lög nr. 98/1999). En sá samn­ingur væri nú búinn að kosta okkur hartnær 80 milljarða í einbera vexti, óafturkræfa og það í erlendum gjaldeyri.

Einungis atbeini forsetans og höfnun þjóðarinnar á Icesave-lögunum í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum varð okkur til lausnar: því að Bretar og Hollendingar með ESB í liði með sér höfðuðu þá málið gegn Íslandi fyrir EFTA-réttinum og steinlágu á því bragði. Svo hrein var samvizka okkar af því máli, að við fengum fortakslausan sýknudóm og þurftum ekki að borga eitt penný né evrucent og engan málskostnað!

Það er þung byrði fyrir ungan mann að hafa tekið eindregna afstöðu gegn lagalegum rétti þjóðar sinnar og ekki þorað að biðjast afsökunar. Hitt er meira í ætt við fífldirfsku að voga sér samt að sækjast eftir sjálfu forsetaembættinu hjá sömu þjóð nokkrum árum síðar! Því á ég fremur aðra ósk þessum málvini mínum til handa: um frjósöm ár við sífellt betri fræðimennsku og akademísk störf.

Höfundur, formaður Þjóðarheiðurs, samtaka gegn Icesave, sat í framkvæmdaráði Samstöðu þjóðar gegn Icesave, sem stóð að undirskriftasöfnun á Kjósum.is með áskorun á forsetann að hafna Buchheit-lögunum.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×