Handbolti

Umfjöllun: Ísland - Austurríki 28-24 | Ísland fer vel af stað í Færeyjum

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Karen Knútsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins.
Karen Knútsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins. Vísir/Eyþór
Íslenska kvennalandsliðið í handbolta lagði Austurríki 28-24 í dag í fyrsta leik liðsins í undankeppni HM í handbolta sem leikin er í Færeyjum.

Staðan í hálfleik var 12-12 eftir sveiflukenndan leik. Ísland náði mest þriggja marka forystu í fyrri hálfleik en þurfti að lokum að hafa fyrir því að jafna metin fyrir hálfleik.

Sóknarleikur Íslands var lengst framan af leik slakur. Liðið tapaði mörgum boltum en hélt sér inni í leiknum á góðum varnarleik og mörgum mörkum úr hraðaupphlaupum.

Ísland náði að bæta sóknarleikinn síðasta stundarfjórðung leiksins á sama tíma og varnarleikurinn hélt og lagði það grunninn að sannfærandi sigrinum í lokin.

Austurríki skoraði aðeins tvö mörk síðustu tíu mínútur leiksins og átti fá svör við frábærum varnarleik Íslands.

Rakel Dögg Bragadóttir og Arna Sif Pálsdóttir fóru mikinn í vörninni en Arna Sif átti að auki mjög góða innkomu í sóknina í seinni hálfleik. Lovísa Thompson átti ekki síður mikilvæga innkomu í seinni hálfleiknum þar sem hún skoraði 2 mörk og fiskaði víti á þeim kafla þegar Ísland náði yfirhöndinni í leiknum.

Karen Knútsdóttir dró vagninn sóknarlega framan af en var tekin úr umferð lungan úr seinni hálfleik.

Ísland mætir Færeyjum á morgun en riðillinn er allur leikinn í Færeyjum. Vinni Ísland á morgun gæti það dugað til að liðið komist í umspil um sæti á HM í Þýsklandi að ári liðinu en tvö efstu lið riðilsins fara áfram. Makedónía er fjórða lið riðilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×