Erlent

Hvítur lögregluþjónn ekki ákærður fyrir að skjóta svartan mann

Samúel Karl Ólason skrifar
Andrew Murray, saksóknari, sagði að fingraför og lífsýni Keith Lamont Scott hefðu fundist á byssu á vettvangi skotárásarinnar.
Andrew Murray, saksóknari, sagði að fingraför og lífsýni Keith Lamont Scott hefðu fundist á byssu á vettvangi skotárásarinnar. Vísir/Getty
Lögregluþjónn sem skaut Keith Lamont Scott til bana í Norður-Karólínu í september verður ekki ákærður. Skotárásin leiddi til mótmæla í Charlotte, en myndband af atvikinu fór eins og eldur um sinu á internetinu. Fjölskylda Scott hélt því fram að hann hefði ekki verið vopnaður þegar hann var skotinn.

Andew Murray, saksóknari, tilkynnti þessa ákvörðun á blaðamannafundi í dag. Hann sagði skotárásina vera löglega og sagði að skambyssa hefði fundist á vettvangi með fingraförum og lífsýni Scott á.

Þar að auki sýndi hann mynd þar sem sjá má útlínu meints ökklahulsturs og samtal tveggja manna á Facebook þar sem annar þeirra viðurkennir að hafa selt Scott byssuna ólöglega. Murray bað íbúa Charlotte að fara vel yfir skýrsluna og birti hana á netinu.

AP fréttaveitan segir frá því að eiginkona ScottRakeyia, hafi sagt lögreglu og fjölmiðlum að maður hennar hefði ekki átt byssu. Rannsakendur birtu hins vegar samskipti þeirra á milli þar sem þau rífast um byssuna.

Scott hafði áður setið í fangelsi í tæpan áratug og var eftirlýstur þegar hann lést. Lögregluþjónarnir voru þó á svæðinu vegna þess að þeir voru að leita að innbrotsþjófi en ekki Scott. Þeir segjast hins vegar hafa séð að hann væri með byssu og kannabis.

Frá blaðamannafundinum í dag. Myndband eiginkonu Keith Lamont Scott. Myndband sem lögreglan birti í kjölfari atviksins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×