Innlent

Hvetur Ögmund til þess að stöðva kerfisbundið útlendingahatur

Valur Grettisson skrifar
Haukur Már Helgason, rithöfundur, segir ríkið stunda kerfiðsbundið útlendingahatur.
Haukur Már Helgason, rithöfundur, segir ríkið stunda kerfiðsbundið útlendingahatur. Mynd / Valgarður Gíslason
„Ég skora á Ögmund Jónasson [innanríkisráðherra. innskt. blm.] að láta ekki kyrrt liggja og skera upp herör gegn kerfisbundnu útlendingahatri íslenska ríkisins,“ segir Haukur Már Helgason, heimspekingur, rithöfundur og ötull baráttumaður fyrir réttindum hælisleitanda og flóttamanna hér á landi.

Það var í morgun sem íranski hælisleitandinn Mehdi Kavyan Pour fann sig knúinn til þess að ganga inn á skrifstofur Rauða krossins þar sem hann hellti svo yfir sig bensíni. Hann hótaði að kveikja í sér fengi hann ekki úrlausn sinna mála. Um örþrifaráð var að ræða.

Medhi hefur dvalið hér á landi í sjö ár. Hann kom til Íslands árið 2005 og virðist hafa komið hingað með Norrænu. Frá því hefur líf hans tekið stakkaskiptum. Hann hefur dvalið í einhverskonar lagalegu tómarúmi þar sem hælisleitendur þurfa bíða úrlausn sinna mála í fjölmörg ár. Árið 2008 fékk Medhi fyrst nóg. Hann fór í hungurverkfall og endaði á spítala eftir að hann hætti að drekka vökva.

Svo virðist sem það hafi ekki orðið til þess að hreyfa við málum hans þrátt fyrir að þau mótmæli hafi, líkt og nú, ógnað lífi hans, eins og Haukur kemst að orði.

„Það eru ekki nema fjórir einstaklingar sem hafa fengið hæli hér á landi um árabil,“ segir Haukur Már sem er ómyrkur í máli og lítur svo á að Útlendingastofnun beiti sínum reglugerðum afar rúmt, og þá helst til þess að skófla hælisleitendum út úr landi.

Hann bendir á að stofnunin þrífst í skjóli íslensku þjóðarinnar.

„Og það er Íslendinga að koma í veg fyrir að svona viðurstyggð fái að viðgangast,“ segir Haukur Már.

Hann endar á því að ítreka áskorun sína til Ögmundar. „Og ég held að það séu margir sem eru tilbúnir að taka undir sjónarmið mín,“ bætir Haukur við.

Medhi hefur verið hafnað um dvöl hér á landi en bíður nú svars um það hvort hann fái mannúðardvalarleyfi. Hann var færður á lögreglustöð eftir atvikið hjá Rauða krossinum.


Tengdar fréttir

Örvæntingin rak Mehdi til þess að hella yfir sig bensíni

Það virðist hafa verið örvæntingin sem rak hinn 53 ára gamla Mehdi Kavyan Pour til þess að taka leigubíl upp í húsnæði Rauða krossins um tíu leytið í morgun. Hann var með tvo fulla brúsa af bensíni með sér. Leigubílstjórinn, sem fréttastofa ræddi við á vettvangi, hélt að bensíntankur bílsins væri farinn að leka.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×