Fastir pennar

Hvað finnst þér?

Guðmundur Andri Thorsson skrifar
Þjóðfélagið er alltaf að breytast. Með hverri breytingu á lögum og reglugerðum, hverju nýju frumvarpi sem samþykkt er, verður eitthvað öðruvísi en það var áður – betra eða verra eftir atvikum, því að breytingar eru ekki góðar eða slæmar í sjálfum sér. Við þurfum að vera vakandi. Þegar skólakerfinu er breytt þá breytast kjörin hjá börnunum okkar; þegar hætt er niðurgreiðslum á tilteknum lyfjum breytast kjörin hjá gamla fólkinu; þegar breytt er lögum um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum þá breytast kjörin hjá okkur – þá höfum við fengið vopn, og getum vísað í viðkomandi reglugerð. Og svo framvegis. Þetta vitum við.

Verum meðVið eigum að taka þátt í lífi okkar. Við eigum að taka þátt í þessum breytingum og hafa áhrif á stefnu þeirra. Til dæmis með því að bjóða okkur fram til löggjafarstarfa eða með því að stuðla að og taka þátt í umræðu um breytingarnar hvar sem því verður við komið – eða með því að kjósa það fólk sem við treystum til að starfa í anda okkar lífsskoðana og setja sig inn í flókin úrlausnarefni fyrir okkar hönd og leysa þau sem fulltrúar okkar og þeirra hugsjóna sem við höfum. Slíkt er kallað fulltrúalýðræði og er eitt af grundvallaratriðunum.

Og svo kemur allt í einu enn frekar til okkar kasta og þegar mikið liggur við erum við öll kvödd til: Hvað finnst þér? Hvernig eigum við að hafa þetta? Og þá þurfum við að setjast niður við eldhúsborðið með okkar fólki – eða í einrúmi – og velta fyrir okkur hvernig okkur finnst að þetta samfélag eigi að vera, hvað sé réttlátt, sanngjarnt, æskilegt, mögulegt.

Það er stór atburður í lífi einnar þjóðar þegar hún er kvödd til og spurð álits á því hvernig stjórnarskráin eigi að vera – hvað eigi að standa þar og hvað ekki – hvaða verðmætamat skuli ráða, hvað sé rétt og sanngjarnt; hvernig fundin verði rétt undirstaða þessa þjóðfélags okkar, sem hefur svo takmarkalausa möguleika til að verða gott. "Amma,?"verður spurt: "hvernig svaraðir þú þegar þjóðin var spurð um þjóðaratkvæði? Ha?! Tókstu ekki þátt! Vildirðu ekki vera með í að ákveða það? Af hverju ekki?"

Þetta eru ekki auðveldar spurningar en við þurfum að svara þeim og það gerir það enginn betur en við sjálf. Það að svara þeim er beinlínis liður í þeirri endurreisn íslensks samfélags sem við hljótum öll að vilja taka þátt í – meira að segja þau sem telja að hér hafi ekki orðið neitt hrun.

Já eða neiÞetta eru sex spurningar og maður svarar annaðhvort já eða nei. Við getum sagt já við því að tillögur Stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar við gerð nýrrar stjórnarskrár – á sjálfsögðu með einhverjum breytingum – og við getum líka sagt nei við því vegna þess að okkur finnst að lögmenn, stjórnmálafræðingar og aðrir fagmenn eigi að gera þetta eða kannski af því að okkur finnist að núverandi stjórnarskrá sé bara alveg ágæt og engin ástæða til að vera hringla með slíkt plagg eftir því hvernig vindurinn blæs í pólitíkinni. Það er fullgilt sjónarmið. En þá er líka að mæta á kjörstað þann 20. október og segja það.

Okkur getur þótt ástæðulaust að setja inn sérstakt ákvæði um að náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeign skuli lýstar þjóðareign og aldrei megi ráðstafa þeim eða veðsetja; Nubo geti ekki keypt Dettifoss eins og hann er örugglega óður í að gera, Hannes Smárason geti ekki keypt Esjuna og selt hana svo til Sádi-Arabíu og svo framvegis; og óveiddur fiskurinn í sjónum verði ekki áframhaldandi grundvöllur að stigvaxandi stéttaskiptu lénsveldi hér eða peningafabrikka með óljósri ávísun. Vera má að okkur finnist einmitt auðsæld fylgja slíku fyrirkomulagi. En þá er líka að mæta þann 20. október á kjörstað og segja það.

Þetta eru grundvallarspurningar um lífsviðhorf og samfélagsgrundvöll og við verðum að þiggja þetta boð um að taka þátt í að móta hann. Á að vera hér lútersk-evangelísk þjóðkirkja eins og hefur verið einn af helstu hornsteinum íslenskrar menningar um aldir eða er það nútíminn að ríkisvaldið hlutist ekki til um lífsskoðanir af því tagi? Eru hugmyndir Stjórnlagaráðs um persónukjör til þess fallnar að ýta enn frekar undir dellumakerí athyglissjúklinga í ræðustól Alþingis eða gerir það þingmenn ábyrgari og ýtir undir að hæfara fólk bjóði sig fram til þingstarfa? Á að draga úr áhrifum stjórnmálaflokkanna? Er hugmyndin um fjórflokkinn kannski bara lýðskrum og mýta? Séu landsmenn allir með sama atkvæðavægi, er þá ekki hætt við því að hagsmunir fámennra byggðarlaga verði fyrir borð bornir eða stuðlar hlutfallskosning að smánarlegu kjördæmapoti? Eigum við að leggjast í endalausar þjóðaratkvæðagreiðslur um öll mál – til dæmis skatta, eins og setti Kaliforníu á hausinn – frekar en að láta fólk sem við treystum taka þær ákvarðanir sem við vitum að þarf að taka en vildum ekki þurfa að taka sjálf? Eða eru þjóðaratkvæðagreiðslur til þess fallnar að fá fólk til að setja sig betur inn í mál, taka frekar ábyrgð sjálft og komast að sameiginlegri niðurstöðu eftir skynsamlegar rökræður? Hefur meirihlutinn kannski alltaf rangt fyrir sér? Eða rétt?

Þetta eru allt erfiðar spurningar og manni líður soldið eins og maður sé að fara í próf sem maður gæti fallið á. Það er til sérstakrar fyrirmyndar hjá núverandi ríkisstjórn að leita til þjóðarinnar um hjálp við að finna út úr þeim. Þetta varðar okkur öll. Og börnin okkar og barnabörnin sem við stöndum frammi fyrir einn góðan veðurdag: "Afi" Hvað gerðir þú í þjóðaratkvæðagreiðslunni árið 2012?"



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×