Skoðun

Húsnæðislán, Svíþjóð og Ísland

Íslendingar búa við léleg lánakjör og lántöku á Íslandi fylgir mikil áhætta. Eftir að hafa búið og átt hús í báðum löndum vil ég gera hér skil á muninum.

Í Svíþjóð eru ekki lántöku- eða stimpilgjöld þannig að fólk getur skipt um banka og flutt sín lán án kostnaðar. Aftur á móti borgar maður fyrir veðleyfi (pantbrev) um 2% af veðleyfinu í fasteigninni. Þetta veðleyfi er í krónum og getur ekki hækkað með vísitölu. Veðleyfi fylgir fasteign alla tíð, þannig að þó fasteignin gangi kaupum og sölum er veðleyfið til staðar. Ef tekið er meira lán er greitt fyrir aukið veðleyfi sem því nemur. Á þeim tæpu sex árum sem við höfum búið hér hafa okkar breytilegu vextir verið á bilinu 1,6 til 6 prósent, óverðtryggt. Í dag eru vextirnir um þrjú prósent. Einnig er hægt að festa vexti til nokkurra ára, það jafnar sveiflur en er vanalega dýrara til lengdar.

Vaxtabætur eru þrjátíu prósent af vöxtunum, ótekjutengdar. Þannig hafa mánaðargreiðslur af 1.000.000 kr. verið 1.333-5.000 kr. á mánuði eða 933-3.500 kr. á mánuði eftir vaxtabætur. Síðan er samkomulagsatriði hvort greitt er af höfuðstól ef lánið fer ekki yfir 75 prósent af virði eignarinnar.

Lánsupphæðin er alltaf sú sama í krónum talið mínus það sem greitt er niður mánaðarlega. Þannig veit maður nákvæmlega upp á krónu hvað maður skuldar næstu árin.

Húsnæðisvextir í Svíþjóð liggja 1-2 prósentum yfir stýrivöxtum og fylgjast Svíar mun betur með stýrivöxtum en Íslendingar, þar sem þeir hafa bein áhrif á mánaðargreiðslur. Þannig virka stýrivextir beint á neyslu í Svíþjóð, en stýrivextir Seðlabanka Íslands virðast vera stýri sem vantar tengingu við framhjól bílsins þar sem fólk finnur ekki bein áhrif af vöxtunum.

Á Íslandi eru enn verðtryggð lán þar sem höfuðstóllinn getur hækkað og hækkað, en áhrifin á mánaðargreiðslur dreifast yfir lengri tíma. Samkeppni er lítil þar sem mikill kostnaður fylgir því að færa lán. Eftir að hafa búið og skuldað í Svíþjóð er tilhugsunin við að taka aftur lán á Íslandi ekki góð, eftir reynslu af öðru og þróaðra fjármálakerfi.




Skoðun

Sjá meira


×