Viðskipti innlent

Hundrað prósent niðurfærsla krónueigna dugar ekki

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri og Már Guðmundsson seðlabankastjóri. Már hefur ásamt fleirum nefnt að slitabú föllnu bankanna þurfi að færa krónueignir sínar niður um allt að 75 prósent. Nú er rætt um 100 prósent niðurfærslu.
Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri og Már Guðmundsson seðlabankastjóri. Már hefur ásamt fleirum nefnt að slitabú föllnu bankanna þurfi að færa krónueignir sínar niður um allt að 75 prósent. Nú er rætt um 100 prósent niðurfærslu.
Allar sviðsmyndir sem teiknaðar hafa verið upp í óbirtri greiðslujafnaðargreiningu Íslands eru neikvæðar fyrir þjóðarbúið samkvæmt heimildum Stöðvar 2. Ein sviðsmyndin gerir ráð fyrir að þrotabú föllnu bankanna afhendi allar krónueignir sínar, þar á meðal eignarhluti í Arion banka og Íslandsbanka, gegn því að taka erlendan gjaldeyri framhjá höftum. 

Sérfræðingar Seðlabankans hafa síðustu mánuði unnið sérstaka greiningu á greiðslujöfnuði Íslands, svokölluðu "balance of payments."

Þetta líkan gefur Seðlabankanum gleggri mynd af áhættunni sem fylgir nauðasamningum föllnu bankanna. Ef það vantar gjaldeyri samkvæmt greiðslujöfnuði þá fer gjaldeyrir af forðanum, en um er að ræða greiningu á stöðu þjóðarbúsins gegnum greiðslujöfnuð.

Ósjálfbær skuldastaða þjóðarbúsins

Háar afborganir í erlendri mynt, bæði hjá ríkissjóði og einkaaðilum, eru á gjalddaga á árunum eftir 2016 og ekki liggur nákvæmlega fyrir hvaðan gjaldeyrir í þessar afborganir á að koma. Gjaldeyristekjur íslenskra fyrirtækja standa í raun ekki undir þessu þrátt fyrir að viðskiptajöfnuður við útlönd hafi verið jákvæður síðustu ár. Þá þarf að hafa hugfast að Ísland greiðir mikið í vexti og arð til erlendra aðila sem sogar til sín stóran hluta þess gjaldeyris sem afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum skapar.

Erlend skuldastaða þjóðarbúsins er í raun ekki sjálfbær. Sjá nánari umfjöllun um ósjálfbærni skuldastöðunnar á vef greiningar Landsbankans hér.

Öll slitabú föllnu bankanna, Kaupþings, Glitnis og Landsbankans, hafa óskað eftir undanþágum hjá Seðlabankanum vegna útgreiðslu á erlendum gjaldeyri til kröfuhafa. Hjá Kaupþingi og Glitni er slík undanþága forsenda þess að hægt sé að greiða atkvæði um nauðasamninga þessara banka. Til stóð að svara erindum þegar vinnu við greiðslujöfnuð væri lokið. Núna liggur þessi greining fyrir.

Þrjár sviðsmyndir

Samkvæmt heimildum fréttastofu eru þrjár sviðsmyndir teiknaðar upp varðandi áhrif uppgjöra þrotabúa föllnu bankanna á greiðslujöfnuð landsins. Samkvæmt þeim öllum er niðurstaðan neikvæð fyrir erlenda skuldastöðu þjóðarbúsins, þ.e. sama hvaða leið verði farin varðandi uppgjör þrotabúa föllnu bankanna, alltaf sé niðurstaðan sú að ekki verði til gjaldeyrir í landinu til að mæta afborgunum lána í erlendri mynt sem falla á gjalddaga eftir árið 2016.

Seðlabankinn áætlar að í október 2012 hafi gömlu bankarnir átt krónueignir að verðmæti 460 milljarða króna. Verðmæti eignarhlutar í nýju bönkunum er um helmingur þeirrar upphæðar. Sú sviðsmynd sem er talin vera best fyrir kröfuhafana (nefnd "best case scenario") felur í sér að þeir afhendi allar krónueignir sínar, en þar á meðal eru eignarhlutir í bæði Arion banka og Íslandsbanka, gegn því að taka stærstan hluta erlends gjaldeyris úr landi.

Um er að ræða 100 prósent niðurfærslu krónueigna og gengur því talsvert lengra en sú 75 prósenta niðurfærsla sem seðlabankastjóri og fleiri hafa nefnt. Þetta þýddi að eignarhlutir í Arion banka og Íslandsbanka rynnu inn í Eignasafn Seðlabanka Íslands.

Tæki til að kortleggja stöðuna

Greiningin hefur ekki verið birt opinberlega og þá hefur fjármálaráðuneytið aðeins fengið kynningu á niðurstöðunum en ekki eintak af gögnum. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu verður þessi greining notuð sem tæki til að kortleggja hversu miklum gjaldeyri sé forsvaranlegt að hleypa framhjá fjármagnshöftum með útgreiðslum til kröfuhafa. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×