Innlent

Hundrað ára hús í miðborg Reykjavíkur rifið án leyfis

Bjarki Ármannsson skrifar
Rúmlega hundrað ára hús við Tryggvagötu 12 hefur verið rifið í leyfisleysi.
Rúmlega hundrað ára hús við Tryggvagötu 12 hefur verið rifið í leyfisleysi. Mynd/Reykjavíkurborg
Rúmlega hundrað ára hús við Tryggvagötu 12 hefur verið rifið í leyfisleysi. Byggingarfulltrúi Reykjavíkur hefur stöðvað framkvæmdir á reitnum vegna þessa og hafa eigendur sjö daga frest til að koma á framfæri skriflegum skýringum vegna málsins.

Húsið var reist árið 1906 og er stundum nefnt Exeter-húsið.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að samkvæmt gildandi deiliskipulagi sé heimilt að lyfta húsinu, breyta formi þaks eða gera viðbyggingu. Jafnframt var gefið út byggingarleyfi þann 16. mars sem veitti leyfi til að rífa hluta hússins til undirbúnings endurbóta á því og húsinu á lóðinni við hliðina, Tryggvagötu 14.

Svona leit húsið út áður en það var rifið.Mynd/Reykjavíkurborg
„Reykjavíkurborg lítur mjög alvarlegum augum á málið því með niðurrifi alls hússins var farið langt út fyrir gildandi byggingarleyfi,“ segir í tilkynningunni. „Niðurrif hússins var því óleyfileg framkvæmd, án allra tilskilinna leyfa og í andstöðu við gildandi deiliskipulag.“

Þegar vikufrestur eigenda til að koma skýringum og athugasemdum á framfæri er liðinn, mun Byggingarfulltrúi taka ákvörðun um það til hvaða aðgerða verður gripið af hálfu borgarinnar. Svo gæti farið að málið verði kært til lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×