Handbolti

HSÍ með átak í líkamlegri uppbyggingu handboltamanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Giedrius Morkunas, markvörður Hauka, bjargar hér marki í leik við ÍBV.
Giedrius Morkunas, markvörður Hauka, bjargar hér marki í leik við ÍBV. Vísir/Vilhelm
Handknattleikssamband Íslands ætlar að stuðla að betri líkamlegri uppbyggingu íslensks handboltafólks og fyrsta skrefið er að halda sérstakt námskeið í Kaplakrika um helgina. Þetta kemur fram á heimasíðu HSÍ.

Námskeið fjallar um líkamlega uppbyggingu handboltamannsins frá barnsaldri til fullorðinsaldurs en þar verður farið yfir styrktarþjálfun frá 5. flokki og upp í 2. flokk. Námskeiðið verður haldið í Kaplakrika í Hafnarfirði.

„Starfsteymi HSÍ í Líkamlegri þjálfun hefur sett upp grind að þjálfun handboltamannsins og verður farið vel í fræðin á bak við það ásamt verklegri kennslu. Farið verður bæði í styrktarþjálfun með og án tækja og tóla. Einnig verður farið yfir bæði stigin á þjálfuninni, þ.e. miðað við aldur og þroska, og síðan tímabilaskiptingu í eldri flokkunum," segir í fréttinni á heimasíðu HSÍ.

Markmiðið er haldið svo að allir þjálfarar yngri flokka í handbolta á Íslandi geti sinnt lágmarksþörf á markvissri styrktarþjálfun hjá sínum flokki.

HSÍ hvetur alla þjálfara til að mæta á námskeiðið og í frétt á heimasíðunni er þeim þjálfurum sem eru með æfingar hjá sínum flokkum á sama tíma bent á að gera viðeigandi ráðstafanir. Námskeiðið á að stuðla að markvissari styrktarþjálfun hjá yngri flokkum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×