Innlent

Hrikaleg aðkoma í Hornvík: „Þvílík frekja, siðleysi og ruddaskapur“

Birgir Olgeirsson skrifar
Mennirnir þrír eru sagðir hafa farið um friðlandið eins og verstu sóðar.
Mennirnir þrír eru sagðir hafa farið um friðlandið eins og verstu sóðar. Vísir/Facebook
„Maður spyr sig hvaða svona mönnum gengur til,“ skrifar Rúnar Karlsson, einn af eigendum ferðaþjónustufyrirtækisins Borea Adventures, sem kom að þremur mönnum í neyðarskýli Björgunarfélags Ísafjarðar í Höfn í Hornvík sem er í friðlandi Hornstranda í gær.

Höfðu mennirnir komið sér fyrir í leyfisleysi í neyðarskýli Björgunarfélagsins með byssur, háfa, net og veiðistangir og stundað ólöglegar veiðar.

„Dauðir mávar með skotsár, selshræ í fjöru, svartfuglsegg, opinn eldur með rusli, grillað á grónu landi svo eitthvað sé tínt til. Nánast allt sem fyrir augu bar var ólöglegt,“ skrifar Rúnar á Facebook

Við selshræið höfðu mennirnir þrír komið fyrir hreyfiskynjara og er talið að það hafi verið gert til að geta skotið refi.

Nanný Arna Guðmundsdóttir, einn af eigendum Borea Adventures, segir fjóra einstaklinga hafa gist á tjaldsvæðinu í Höfn sem urðu varir við lætin í mönnunum þremur. Heyrðu þeir meðal annars skothvelli og sprengingu þegar gaskútur sprakk sem mennirnir þrír höfðu skotið á. „Þvílík frekja, siðleysi og ruddaskapur,“ skrifar Nanný Arna á Facebook. 

Rúnar segir að búið sé að hafa samband við lögreglu, landeiganda og Umhverfisstofnun og að málið verði kært. Lögreglan á Ísafirði segir málið komið til skoðunar hjá embætti lögreglunnar á Ísafirði. 

Mennirnir þrír voru fluttir á bátunum Salómon Sig og Gunnu Betu í Hornvík. Salómon Sig er skráður á Gjá útgerð og er notaður í farþegaflutninga af fyrirtækinu Strandferðum. Einn af eigendum Salómons Sig er Ásgeir Jónas Salómonsson en hann segir einu aðkomu fyrirtækisins Strandferða að þessu máli vera þá að það flutti mennina þrjá í Hornvík.

Hann segir Strandferðir hafa gert mönnunum þremur grein fyrir þeim reglum sem gilda í friðlandinu, eins og að bannað væri að gista í neyðarskýlinu og meðferð skotvopna bönnuð. 

„Þetta er alfarið þessir farþegar sem við fluttum í land og finnst sárt að vera að blanda fyrirtækinu í þetta,“ segir Ásgeir Jónas. Hann segir lögregluna ekki hafa haft samband við fyrirtækið en vonast til að svo verði svo sannleikurinn muni koma ljós í málinu.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×