Lífið

Hreyfihömluð börn fá spjaldtölvur

Freyr Bjarnason skrifar
Sigurður Þór kom færandi hendi með iPad til Þórhildar og foreldra hennar fyrir þremur árum.
Sigurður Þór kom færandi hendi með iPad til Þórhildar og foreldra hennar fyrir þremur árum.
Á undanförnum þremur árum hafa iBörn í gegnum verslunina iStore gefið 24 sjaldtölvur til hreyfihamlaðra barna víðs vegar um landið.

Árangurinn hefur verið góður því börnin hafa sýnt aukna hreyfigetu og lífsskilyrði þeirra hafa bæst til muna. Sigurður Þór Helgason er maðurinn á bak við iBörn. Hann byrjaði að kynna sér stöðu hreyfihamlaðra barna eftir að hann fékk tölvupóst frá föður einnar stúlku sem var með taugahrörnunarsjúkdóminn SMA1. Þar spurði faðirinn Sigurð hvort hann héldi að iPad gæti nýst dóttur hans.

„Ég sá von um að þetta gæti mögulega breytt hennar lífi. Ég vildi ekki missa þetta tækifæri úr höndunum því mér fannst þetta gríðarlega spennandi. Þau voru ekki að biðja mig um að fá iPad gefins en ég ákvað samt að gefa þeim hann.“

Eftir að stúlkan, Þórhildur Nótt Mýrdal sem lést árið 2011 aðeins þriggja ára, fékk iPadinn og prófaði forritin sem Sigurður hafði sett þangað inn fór hún að sýna hreyfingar í öxlinni sem foreldrar hennar höfðu aldrei séð áður.

„Við það að sjá þessi viðbrögð og hvað hún brást vel við þessu vissi ég að ég var kominn á braut sem ég myndi ekki fara út af aftur. Þetta var orðið að verkefni hjá mér,“ segir Sigurður. „Foreldrar hennar hringja í mig sex mánuðum síðar til að segja mér að dóttir þeirra er farin að keyra hjólastól. Það fannst mér kraftaverk og ég hoppaði hæð mína af kæti. Það er ótrúlega góð tilfinning að geta haft svona góð áhrif á líf annarra.“

Eftir að Þórhildur sýndi svona góð viðbrögð fréttist það út um allan heilbrigðisgeirann og næstu vikurnar kynnti Sigurður fyrir hinum ýmsu starfsstéttum hans hvernig þau gætu nýtt sér iPadinn. „Það er gaman að hafa átt þátt í því að þetta er núna komið út um allt.“

Foreldrar Þórhildar eru þakklátir Sigurði og framtaki hans: „Maður á eiginlega ekki rétt orð til að lýsa hvað hann er búinn að breyta ofboðslega miklu fyrir rosalega mörg börn. Dóttir okkar fór upp úr rúminu, úr því að geta ekki gert neitt í að keyra stólinn sinn sjálf. Þetta munar bara öllu,“ segir móðir hennar Steinunn Björg Gunnarsdóttir.

„Þetta eru dýr tæki og það eru ekki allir foreldrar sem hafa tök á því að kaupa svona. Hans framlag skiptir ofboðslega miklu máli og hann er ekki að fá næga athygli fyrir það í samfélaginu, finnst mér.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×