Innlent

Hraunrennsli um 50-70 rúmmetrar á sekúndu

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/guðbergur davíðsson
Litlar breytingar hafa orðið á eldgosinu í Holuhrauni síðustu vikur. Hraunrennslið undanfarnar vikur er talið hafa verið um 50-70 rúmmetrar á sekúndu. Þetta kom fram á fundi vísindamannaráðs almannavarna í dag.

Mikil jarðskjálftavirkni er enn í Bárðarbungu. Hún hefur þó verið nokkru minni undanfarnar vikur en hún var fyrstu mánuði umbrotanna. Þrír skjálftar af stærðinni 4,6 hafa mælst frá síðasta fundi vísindamannaráðs, 13.janúar. Sextán skjálftar mældust á bilinu 4,0 til 5,0 frá því á þriðjudag og um 150 skjálftar alls. Í kvikuganginum hafa mælst á fjórða tug skjálfta, allir minni en 2 stig. Þá hafa um 20 skjálftar mælst við Tungnafellsjökul frá því á þriðjudag, sá stærsti 2,3 stig. Við Herðubreið hafa einnig mælst um 20 skjálftar, sá stærsti 2,3 stig.

Þá sýna GPS mælingar við norðurjaðar Vatnajökuls áframhaldandi hægan samdrátt í átt að Bárðarbungu. Enn dregur þó úr hraða samdráttarins. Ekki hafa borist gögn frá GPS stöðinni í öskju Bárðarbungu og er því verið að skipuleggja ferð á jökulinn til að koma stöðinni aftur í samband.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×