Erlent

Hörð mótmæli í Stokkhólmi

Atli Ísleifsson skrifar
Talsverð spenna var í miðborg Stokkhólms fyrr í dag.
Talsverð spenna var í miðborg Stokkhólms fyrr í dag. Vísir/AFP
Fimmtán voru handteknir í miðborg Stokkhólms þar sem sænskir nasistar héldu útifund við Jacobsbergsgatan fyrr í dag. Þúsundir manna komu svo saman skammt frá til að mótmæla nýnasistaflokknum Flokki Svía.

Mörg þúsund manns komu saman í Kungsträdgården um miðjan dag til að mótmæla því að nasistar fengju að halda útifund þar skammt frá. „Ég er hér til að mótmæla gegn nasismanum og lögreglunni. Mér finnst að lögum sé ekki fylgt ef maður leyfir nasistum að mótmæla,“ sagði Katja Hildén, einn mótmælenda í samtali við SVT.

Spennan á svæðinu jókst verulega þegar nokkrir einstaklingar hófu að kasta bengalljósum og kveikja í hvellhettum í Kungsträdgården. Lögregla segir þó að meirihluti mótmælenda hafi verið til friðs. Á vef Aftonbladet segir að þrír lögreglumenn hafi slasast í átökum við mótmælendur, en lögregla hefur reynt að halda nýnasistunum og andstæðingum þeirra aðskildum eftir fremsta megni.

Lögregla handtók fjölda manns fyrir að brjóta lög um að klæðast grímum, auk þess að nokkrir voru teknir höndum fyrir að klifra upp á þak Stokkhólmsóperunnar.

Nýnasistar komu saman í miðborg Stokkhólms fyrr í dag.Vísir/AFP
Vísir/AFP
Vísir/AFP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×