Erlent

Hollande sendir Trump tóninn

Francois Hollande og Donald Trump.
Francois Hollande og Donald Trump. Vísir/EPA
Francois Hollande, forseti Frakklands, hefur svarað ummælum Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, um að „París sé ekki lengur París“ fullum hálsi. Trump sagði einnig í ræðu í gær að vinur sinn „Jim“ þorði ekki lengur að fara með fjölskyldu sína til Frakklands vegna hryðjuverkaárása þar.

Hann gagnrýndi hvernig ríki Evrópu hafa brugðist við hryðjuverkaárásum.

Rúmlega 230 manns hafa látið lífið í mörgum hryðjuverkaárásum í Frakklandi frá 2015 og sama ár lýsti ríkið yfir neyðarástandi. Það veitir ríkinu auknar heimildir samkvæmt lögum til að berjast gegn hryðjuverkasamtökum og hefur neyðarástandið verið framlengt nokkrum sinnum og stendur það enn yfir.

Hollande sagði að Trump eigi að veita bandamönnum Bandaríkjanna stuðning. Það sé mikilvægt að berjast í sameiningu gegn hryðjuverkum og að ekki sé gott að ögra bandamönnum sínum.

„Ég myndi ekki gera það gagnvart Bandaríkjunum og ég hvet forseta Bandaríkjanna að gera það ekki gagnvart Frakklandi,“ sagði Hollande í dag samkvæmt frétt Reuters.

Hann skaut þó á Bandaríkin og sagði að í Frakklandi hefðu íbúar ekki jafn greiðan aðgang að skotvopnum og í Bandaríkjunum. Í Frakklandi væru menn ekki að hefja skothríð í mannmergð til þess eins að skapa dramatík og sorg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×