Innlent

Höfðu sannarlega samráð

Umhverfisráðuneytið segir að samráð hafi verið haft við Skógræktarfélag Íslands.
Umhverfisráðuneytið segir að samráð hafi verið haft við Skógræktarfélag Íslands.

Umhverfisráðuneytið vísar á bug fullyrðingum um að ekkert samráð hafi verið haft við Skógræktarfélag Íslands við undirbúning frumvarps til breytinga á lögum um náttúruvernd.

Eins og kom fram í Fréttablaðinu í gær sendi Skógræktarfélag Íslands bréf á öll aðildarfélög sín þar sem hvatt var til mótmæla gegn frumvarpinu. Þar segir að „ekkert samráð“ hafi verið haft við Skógræktarfélagið eða undirfélög þess við gerð frumvarpstillögunnar.

Í tilkynningu sem ráðuneytið sendi frá sér í gær kemur hins vegar fram að í maí síðastliðnum hafi nefndin sem vinnur að endurskoðun laganna, sent erindi í tölvuskeyti til Skógræktarfélagsins þar sem kallað var eftir ábendingum félagsins. Framkvæmdastjóri hafi svarað skeytinu, þakkað fyrir traustið og boðað athugasemdir frá félaginu en þær hafi aldrei borist.

Þá eigi umhverfisverndarsamtök landsins sameiginlegan fulltrúa í endurskoðunarnefndinni og það hafi Skógræktarfélaginu átt að hafa verið ljóst. Ráðuneytið hvetur sem flesta til að senda inn athugasemdir við frumvarpsdrögin áður en frestur rennur út þann 21. janúar. - þj



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×