Enski boltinn

Hodgson: Metin halda Rooney hungruðum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Wayne Rooney fagnar 46. landsliðsmarkinu.
Wayne Rooney fagnar 46. landsliðsmarkinu. vísir/getty
Wayne Rooney, leikmaður Manchester United, er orðinn þriðji markahæsti leikmaðurinn í sögu enska landsliðsins eftir að skora tvö mörk í 3-1 útisigri gegn Skotlandi í gærkvöldi.

Rooney er búinn að skora 46 mörk í 101 landsleik, tveimur mörkum minna en Gary Lineker sem skoraði 48 mörk í 80 leikjum. Hann vantar þrjú mörk til að komast fram úr Lineker og fjögur mörk til að verða sá markahæsti frá upphafi.

Sir Bobby Charlton trónir enn efstur á markalistanum, en hann skoraði 49 mörk í 106 leikjum fyrir enska landsliðið á tólf ára landsliðsferli.

Rooney gæti lokið landsliðsferlinum sem marka- og leikjahæsti leikmaður Englands frá upphafi, en leikurinn í gær var númer 101 hjá honum fyrir landsliðið.

Hann er í níunda sæti yfir leikjahæstu menn Englands frá upphafi, 24 leikjum á eftir markverðinum Peter Shilton sem varði mark landsliðsins í 20 ár frá 1970-1990. Roy Hodgson, landsliðsþjálfari Englands, vill að fyrirliðinn stefni að því að bæta öll þessi met.

„Ef þú spyrð mig þá ætti það að vera öllum mikilvægt að slá landsliðsmet. Svona met eru mikilvæg. Það hlýtur að vera gaman fyrir Rooney að hugsa þannig. Ef hann heldur svona áfram verður hann efstur á listanum,“ sagði Hodgson eftir sigurinn í gærkvöldi.

„Hann getur líka orðið leikjahæstur og ef hann ætlar að ná því meti verður hann að halda sér í formi og spila í fleiri ár,“ sagði Roy Hodgson.


Tengdar fréttir

Rooney: Mjög sérstakt kvöld fyrir mig

Wayne Rooney, fyrirliði enska landsliðsins, var kátur eftir 3-1 sigur á Skotum í vináttulandsleik í Glasgow í kvöld en hann skoraði tvö mörk í leiknum og er þar með kominn með 46 mörk fyrir enska landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×