Viðskipti innlent

Hlutur ríkissjóðs í Reitum fór á 3,9 milljarða

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðjón Auðunsson er forstjóri Reita fasteignafélags.
Guðjón Auðunsson er forstjóri Reita fasteignafélags. Vísir/Daníel
Útboði á eignarhlut ríkissjóðs Íslands í Reitum fasteignafélagi hf. lauk klukkan 8:30 í morgun. Óskuðu fjárfestar eftir því að kaupa 73.010.000.- hluta í Reitum, eða sem nemur 9,9% af heildarhlutafé í Reitum. Markaðsviðskipti Landsbankans höfðu umsjón með útboðinu en greint er frá sölunni á vef Landsbankans.

Sölugengi í útboðinu var ákveðið 83,30 krónur á hlut. Heildarnafnverð samþykktra tilboða, eftir skerðingu var 47.222.796 hlutir eða sem samsvara 6,38% af heildarhlutafé Reita. Heildarsöluverðmæti samþykktra tilboða eftir skerðingu er því rúmlega 3,9 ma.kr. Að útboðinu loknu á ríkissjóður ekki eignarhlut í Reitum.

Öll samþykkt tilboð voru boðin fjárfestum á sama gengi, þar sem lægsta samþykkta gengi réð sölugenginu. Samþykkt tilboð sem bárust á sama gengi og sölugengi voru skert sem nam umframeftirspurn, en þó ekki niður fyrir 200.000 hluti að nafnverði sem var lágmarksfjöldi hluta sem hægt var að bjóða í útboðinu. Tilboðum sem bárust á lægra gengi en sölugengi var hafnað.

Viðskiptadagur vegna útboðsins er 22. ágúst 2016 og greiðslu- og afhendingardagur vegna viðskiptanna er miðvikudagurinn 24. ágúst 2016.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×