Innlent

Hluti bænda lepur dauðann úr skel

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Sauðfjárbúskapur er lítt líklegur til þess að bæta hag þeirra sem hann stunda samkvæmt búfjárreikningum. Laun sauðfjárbænda virðast undir lágmarkslaunum.
Sauðfjárbúskapur er lítt líklegur til þess að bæta hag þeirra sem hann stunda samkvæmt búfjárreikningum. Laun sauðfjárbænda virðast undir lágmarkslaunum. Fréttablaðið/Vilhelm
Kúa- og sauðfjárbændur virðast fá lágmarkslaun eða minna miðað við búfjárreikninga, að því er fram kemur í nýrri samantekt efnahagsritsins Vísbendingar.

Þá kemur fram að beingreiðslur og aðrir styrkir séu um þriðjungur af tekjum kúabænda og 43 prósent af tekjum sauðfjárbænda. Ef tekin er með í reikninginn meðgjöf innflutningsverndar búvara þá nema styrkir til kúabúa um 51 prósenti af tekjum og um 65 prósentum hjá sauðfjárbúum.

Samkvæmt útreikningum Vísbendingar nema mánaðarlaun mjólkurbóndans um 218 þúsund krónum á mánuði (með launatengdum gjöldum) en ekki nema 129 þúsund krónum á mánuði hjá sauðfjárbændum.

„Þetta eru auðvitað mjög alvarleg tíðindi fyrir bændur og samfélagið allt. Þessi stétt fær lágmarkslaun eða minna, en það getur ekki verið ásættanlegt,“ segir í umfjöllun blaðsins.

Bent er á að heildarstyrkir til landbúnaðarins, að innflutningsvernd meðtalinni, séu um 19 milljarðar króna. Þar af séu útlagðir peningar úr ríkissjóði liðlega 12 milljarðar.

„Þessar tölur bera það hins vegar með sér að bændur sem styrktir eru með þessum hætti lepja dauðann úr skel.“ Vísbending bendir á að jafnvel þótt hagnaði sé bætt við og gert ráð fyrir að hann lendi í vasa bænda hækki mánaðarlaun í sauðfjárrækt ekki upp í nema 191 þúsund krónur, en í 342 þúsund hjá kúabændum.

Velt er upp spurningunni um hvers vegna andstaða sé jafnmikil og raun beri vitni gegn því að breyta kerfinu, þegar ljóst sé að neytendur greiði hærra verð fyrir landbúnaðarvörur en þeir þyrftu að gera ef innflutningur væri heimill og að ríkið greiði til bænda háa styrki sem til dæmis gætu farið í byggingu spítala. Í ofanálag séu svo laun bænda lág.

Í umfjöllun Vísbendingar er bent á að hjá Bændasamtökum Íslands starfi á fjórða tug starfsmanna, en auk þeirra séu um 25 búgreinasamtök og fleiri félög bænda sem sum séu með starfsmenn á sínum snærum.

„Því er sú hugsun nærtæk að kerfið sé býsna dýrt og vilji viðhalda sér sjálft,“ segir í Vísbendingu. „Það er alþekkt að slíkt gerist oft um úrelt kerfi sem litlum tilgangi þjóna lengur.“

Einfalt er sagt að setja fram áætlun sem opni erlenda markaði markvisst fyrir neytendum án þess að það snerti þá fjárhagslega sem sem nú stundi landbúnað.

„Styrkirnir eru nú sem svarar til þrefalds launakostnaðar þeirra sem við greinina vinna og því vel gerlegt að bæði draga úr ríkisútgjöldum og gera vel við bændur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×