Lífið

Hláturjóga og lifandi bókasafn á götuhátíð

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Óðinn og Ingveldur hafa starfað á vegum Hins hússins í sumar. Óðinn hjá Götuleikhúsinu og Ingveldur hjá Jafningjafræðslunni.
Óðinn og Ingveldur hafa starfað á vegum Hins hússins í sumar. Óðinn hjá Götuleikhúsinu og Ingveldur hjá Jafningjafræðslunni. Vísir/AntonBrink
Nóg verður um að vera hjá Jafningjafræðslu Hins hússins í dag þegar efnt verður til árlegrar götuhátíðar.

Hátíðinni má líkja við nokkurs konar uppskeruhátíð Jafningjafræðslunnar og þeirra listhópa sem starfandi hafa verið í Hinu húsinu í sumar en boðið verður upp á tónlistar- og skemmtiatriði auk veitinga. Hátíðin er með stærra sniði nú en áður og má segja að nokkrar uppskeruhátíðir hafi verið sameinaðar í eina stóra og veglega götuhátíð.

„Þetta er smá eins og uppskeruhátíð og við krakkarnir í Jafningjafræðslunni sjáum um að skipuleggja hana,“ segir Ingveldur L. Gröndal, eitt þeirra ungmenna sem starfað hafa með fyrrnefndri Jafningjafræðslu í sumar.

Hátíðin fer fram í porti Hins hússins og segir Ingveldur að fjölmargir hafi kíkt við á undanförnum árum enda dagskráin fjölbreytt og skemmtileg. En meðal þeirra sem fram koma eru Friðrik Dór, Úlfur Úlfur og Rythmatik. Hin eina sanna Sigga Kling verður líka á svæðinu og spáir í spil fyrir áhugasama, hláturjóga, smokkakennsla og svokallað lifandi bókasafn. „Þá er ýmiss konar fólk sem kemur og talar, þá eru þau í rauninni bækurnar. Núna koma til dæmis Samtökin '78,“ segir Ingveldur.

Einnig verður boðið upp á mat og drykk og geta gestir meðal annars gætt sér á pylsum eða bylsum. Ingveldur segir skipulag hátíðarinnar hafa gengið vel og slá botninn í gott sumarstarf en störfum Jafningjafræðslunnar og listahópa á vegum Hins hússins lýkur á morgun.

Jafningjafræðslan er skipuð ungu fólki og rekin af Hinu húsinu en hún býður upp á fræðslu sem mælir með heilbrigðum lífsstíl. Hugmyndafræði hennar er sú að ungur fræði ungan og eru því forvarnir þess unnar af ungu fólki fyrir ungt fólk.

Götuleikhús Hins hússins hefur einnig verið á fleygiferð í sumar og efnir til viðburðarins Vængjasláttur í dag. Götuleikhúsið hefur á föstudögum í sumar, líkt og fyrri sumur, staðið fyrir viðburðum undir yfirskriftinni Föstudagsfiðrildi en í dag verður lokahnykkurinn tekinn og verður leikhópurinn fyrir utan Bókabúð Máls og menningar á Laugavegi. „Við verðum með grímukarakterana okkar og ætlum að bjóða fólki að leika með okkur,“ segir Óðinn Ásbjarnarson, einn af meðlimum leikhússins í sumar. Hann segir sumarið hafa verið skemmtilegt og góða stemningu ríkjandi í hópnum. Fyrir áhugasama þá hefst Vængjasláttur Götuleikhússins klukkan 16.00.

Götuhátíð Jafningjafræðslunnar fer líkt og áður segir fram í porti Hins hússins sem staðsett er í Pósthússtræti 3-5. Dagskrá hefst klukkan 15.00 og eru allir boðnir hjartanlega velkomnir.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 14. júlí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×