Innlent

Hjúkrunarheimili á Stokkseyri lokað vegna slæms aðbúnaðar íbúa

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Telur embættið fullreynt að knýja fram úrbætur og að öryggi sjúklinga sé stefnt í hættu.
Telur embættið fullreynt að knýja fram úrbætur og að öryggi sjúklinga sé stefnt í hættu. Já.is
Heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson hefur ákveðið að loka hjúkrunarheimilinu Kumbaravogi á Stokkseyri að tillögu Embættis landlæknis. Vinna er hafin við að finna íbúum heimilisins viðeigandi úrræði. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Velferðarráðuneytisins.

Þar kemur fram að Embætti landlæknis hafi ítrekað gert athugasemdir við forstöðumann Kumbaravogs um aðbúnað íbúa á heimilinu og krafist úrbóta vegna slælegs ástands húsnæðisins og ófullnægjandi mönnunar.

Telur embættið fullreynt að knýja fram úrbætur og að öryggi sjúklinga sé stefnt í hættu en ekki hefur verið brugðist við ábendingum Embættis landlæknis með viðunandi hættu þegar eftir því hefur verið gengið.

Í tilkynningu ráðuneytisins kemur fram að forstöðumanni Kumbaravogs hafi verið gerð grein fyrir áformum um lokun hjúkrunarheimilisins með bréfi 12.desember síðastliðinn og þá verið gefinn kostur á andmælum.

Segir að ekki hafi komið fram neinar upplýsingar frá rekstraraðilum hjúkrunarheimilisins sem benda til þess að vænta megi nauðsynlegra úrbóta á heimilinu. Áætlað er að síðustu íbúar flytji þaðan eigi síðar en 31.mars næstkomandi.

Að sögn ráðuneytisins er áhersla lögð á hagsmuni sjúklinga en unnið verður að því að finna þeim viðeigandi búsetuúrræði í samráði við þá og aðstandendur þeirra.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×