Erlent

Hinn „breski Schindler“ látinn 106 ára

Bjarki Ármannsson skrifar
Sir Nicholas Winton.
Sir Nicholas Winton. Vísir/EPA
Sir Nicholas Winton, breskur hlutabréfamiðlari sem skipulagði björgun 669 tékkneskra barna frá útrýmingarbúðum nasista, er látinn. Hann var 106 ára.

Winton sá til þess að börnin, sem öll voru af gyðingaættum, voru flutt með lest frá Prag og alla leið til Bretlands. Þar fann hann fjölskyldur sem voru tilbúnar til að taka börnin að sér.

Björgun Winton hefur verið líkt við afrek hins þýska Oskar Schindler, sem þekktur er fyrir að hafa bjargað lífum 1.200 gyðinga á meðan Helförinni stóð. Þótt ótrúlegt megi virðast, fékk almenningur ekki að vita af verkum Winton fyrr en nærri hálfri öld eftir að þau áttu sér stað. Hann var sleginn til riddara árið 2003.

Þekkt er myndbandið af því þegar Winton fékk óvænt að hitta marga þeirra sem hann hafði látið bjarga í þætti í breska ríkisútvarpinu árið 1988. Fólkið sat þá í kringum Winton í sjónvarpssal er fjallað var um starf hans og stóð svo upp þegar þáttastjórnandinn spurði hvort einhver í salnum ætti Winton líf sitt að þakka. Ótrúlega hjartnæmt atvik sem sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×