Innlent

Hilmar Leifsson í meiðyrðamál við DV

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Jón Trausti Reynisson og Reynir Traustason, ritstjórar DV.
Jón Trausti Reynisson og Reynir Traustason, ritstjórar DV. Mynd/Heiða Helgadóttir
Hilmar Þór Leifsson hefur stefnt ritstjórum DV, feðgunum Reyni Traustasyni og Jóni Trausta Reynissyni, fyrir dóm vegna meiðyrða. Hilmar stefnir vegnar fréttar sem birt var í DV helgina 3.-7. ágúst árið 2012 og bar yfirskriftina „Láglaunamenn í undirheimum“.

Í fréttinni er fullyrt að Hilmar Þór tengist eða hafi tengst glæpasamtökunum Hells Angels og hann sé félagi í samtökunum sem stundi skipulagða glæpastarfsemi. Þá segir í fréttinni að stefnandi sé háttsettur í stærstu glæpasamtökum heims. Í fréttinni segir síðan að mánaðarlaun opinberra meðlima í íslenskum undirheimasamtökum séu ekki há og því séu láglaunamenn í undirheimunum.

Stefnandi er nafngreindur í fréttinni og upplýst um að mánaðarlaun hans séu krónur 19.000,- á mánuði. Í stefnunni segir að fréttin verði ekki skilin öðruvísi en svo að framgreind mánaðarlaun stefnanda séu vegna starfa hans í undirheimunum.

Hilmar sendi bréf þann 10. september 2012 til DV þar sem vakin var athygli á því að ummæli sem væri að finna í fréttinni væru ærumeiðandi aðdróttanir. Var þess krafist að DV upplýsti hver bæri ábyrgð á fréttinni. Ekkert svar barst við framangreindu erindi né ítrekun þess og af þeirri ástæðu var höfðað mál.

Fyrirtaka fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur á mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×