Innlent

Herinn er farinn

Bandaríski herinn er farinn eftir fimmtíu og fimm ára veru í landinu. Síðustu hermennirnir drógu niður bandaríska fánann í dag. Þeir halda af landi brott í kvöld. Íslenski fáninn blaktir nú við hún í herstöðinni í Keflavík.

Bandaríski og íslenski fáninn voru dregnir niður síðdegis við látlausa athöfn á herstöðinni við Keflavík og sá íslenski síðan dreginn einn að húni. Bandaríkjamenn hafa því formlega afhent íslenskum yfirvöldum svæðið sem verður þó áfram lokað fyrir almenningi.

Valþór Söring Jónsson vann í 32 ár hjá bandaríska hernum og segir tilfinningar sínar blendnar á þessum tímamótum þegar hann er að kveðja sinn vinnuveitanda og þá menningu sem hann ólst upp við. Hann segir þó enga ástæðu til að hengja haus og hefur nú stofnað rafverktakafyrirtæki ásamt bróður sínum. Hann sé staðinn upp úr framkvæmdastjórastólnum og kominn í harkið. Hann segir marga vinnufélaga sínu þegar komna með starf - síst þó þeir eldri.

Guðbrandur Einarsson, formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja, er þokkalega sáttur við stöðuna en um 50 af hans félagsmönnum eru enn án vinnu, sem er um 40% af þeim sem misstu vinnuna. Aðspurður hvers konar nýting á herstöðinni sé efst á hans óskalista segist hann við þessi tímamót helst sjá fyrir sér starfsemi öndverða við her, eða einhvers konar friðarstofnanir.

Samtök herstöðvaandstæðinga hyggjast fagna brottför hersins á morgun með skoðunarferð um herstöðina - sú ferð er þó háð ströngum skilyrðum yfirvalda, segir Stefán Pálsson, talsmaður samtakanna, meðal annars var sérstaklega tiltekið að einungis embættismenn íslenska ríkisins mættu draga þar fána að húni.

 

 

 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×