Viðskipti innlent

Héraðsdómur samþykkir nauðasamning Glitnis

ingvar haraldsson skrifar
Steinunn Guðbjartsdóttir og Páll Eiríksson kynntu nauðsamningsfrumvarp Glitnis í Héraðsdómi Reykjavíkur á föstudaginn.
Steinunn Guðbjartsdóttir og Páll Eiríksson kynntu nauðsamningsfrumvarp Glitnis í Héraðsdómi Reykjavíkur á föstudaginn. vísir/anton
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur samþykkt nauðasamningsfrumvarp Glitnis. Frá þessu er greint á heimasíðu Glitnis en nauðasamningsfrumvarpið var tekið fyrir í Héraðsdómi síðasta föstudag.

Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis segir að næst verði nauðasamningsfrumvarpið tekið fyrir í Bandaríkjunum þann 15. desember því slitameðferðin sé viðurkennd þar í landi. Í kjölfarið þurfi svo endanlegt samþykki Seðlabanka Íslands á undanþágu frá lögum um gjaldeyrishöft. Í kjölfarið verði hægt að greiða kröfuhöfum út í samræmi við nauðasamninginn. Gangi allt að óskum sé gæti það orðið fyrir áramót.

Viðstaddir fylgdust með af athygli í Héraðsdómi á föstudaginn.vísir/anton
Greiða um 520 milljarða út strax

Reiknað er með að fyrsta greiðslan nemi um 520 milljörðum króna og verði greidd út í evrum, dollurum, pundum og norskum krónum. Þá mun Glitnir greiða jafnvirði 223 milljarða króna í stöðugleikaframlag til ríkisins en þar er stærsta eignin 95 prósenta hlutur í Íslandsbanka. Heildareignir Glitnis nema tæplega þúsund milljörðum króna.

Samkvæmt nauðasamningsfrumvarpinu er gert ráð fyrir að kröfuhafar fái ríflega 30 prósent upp í kröfur umfram 3,5 milljónir króna en allar kröfur að þeirri upphæð verða greiddar út að fullu.

Þá mun Glitnir gefa út skuldabréf, sem og hlutabréf, í nýju eignaumsýslufélagi til kröfuhafa Glitnis. Á næsta ári er svo stefnt að því að greiða 110 milljarða af skuldabréfinu og svo áfram næstu árin. Endanlegar upphæðirnar ráðast af því hversu vel gengur að ávaxta eignir Glitnis sem eftir standa að loknum nauðasamningum.

Nauðsamningsfrumvarp Kaupþings var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær og nauðsamningsfrumvarp Landsbankans verður tekið fyrir þann 15. desember.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×