Enski boltinn

Henderson kemur Gerrard til varnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gerrard svaraði einhverjum gagnrýnisröddum með flottu marki gegn Everton um helgina.
Gerrard svaraði einhverjum gagnrýnisröddum með flottu marki gegn Everton um helgina. Vísir/Getty
Jordan Henderson hefur komið fyrirliða sínum, Steven Gerrard, til varnar, en sá síðarnefndi hefur legið undir talsverðri gagnrýni fyrir frammistöðu sína, bæði með enska landsliðinu og Liverpool, síðustu mánuði.

„Stevie er enn í hópi bestu leikmanna ensku úrvalsdeildarinnar,“ sagði Henderson um félaga sinn inni á miðju Liverpool.

„Það efast enginn um hæfileika hans. Mörg lið setja mann til höfuðs honum sem sýnir hversu góður leikmaður hann er. Hann á ekki skilið neina gagnrýni.“

Gerrard skoraði fallegt mark beint úr aukaspyrnu í nágrannaslagnum gegn Everton á laugardaginn. Það dugði þó ekki til sigurs, en Phil Jagielka jafnaði metin með frábæru marki í uppbótartíma.

Þrátt fyrir vonbrigðin sem fylgdu jöfnunarmarkinu var Henderson ánægður með frammistöðu Liverpool á laugardaginn.

„Þetta var svekkjandi, en frammistaðan var mjög góð, eins og hún á að vera. Við vorum ákveðnir og duglegir. Það var flæði í sóknarleiknum og við sköpuðum færi. Varnarleikurinn var einnig góður sem var ánægjulegt.“

Liverpool er í 13. sæti deildarinnar með sjö stig eftir sex leiki.


Tengdar fréttir

Draumamark Jagielka tryggði Everton stig | Sjáið mörkin

Everton stal stigi á Anfield Road í Liverpool í hádegisleik ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta. Phil Jagielka tryggði Everton 1-1 jafntefli á heimavelli Liverpool með ótrúlegu marki í uppbótartíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×