Lífið

Helvítis fokking fokk á forsíðu Hrunsins

Lifi byltingin Gunnar sagði það sem brann á þjóðinni.
Lifi byltingin Gunnar sagði það sem brann á þjóðinni.

Gunnar Már Pétursson myndlistarmaður er maðurinn sem færði fólkinu hin fögru orð:

Helvítis fokking fokk! á skilti í mótmælunum á Austurvelli fyrr á þessu ári.

Þessi fleygu orð urðu að hálfgerðri tákngervingu íslenska efnahagshrunsins, komu fyrir í Skaupinu þar sem Jón Gnarr gaf fólki innsýn inn í hvernig þetta skilti varð til.

Og nú prýðir Gunnar bókakápuna á bók Guðna Th. Jóhannessonar, Hrunið, en hún fékkst með góðfúslegu leyfi Gunnars.

„Það er afskaplega sérstakt að hafa öskrað eitthvað út úr sér sem svo margir geta tekið til sín og heimfært yfir á sig og sínar aðstæður,“ segir Gunnar. „Ef fólk getur það þá er það bara frábært.“

Gunnar var mjög sýnilegur í byltingunni og skiltið varð á örskammri stundu heimsfrægt á Íslandi.

„Stærsta krafan var að stjórnin færi frá og hún gerði það. Svo er það fyrst núna sem maður sér einhverjar rannsóknir á ólöglegum viðskiptum.“ Gunnar bindur vonir við að þær rannsóknir haldi áfram.

Óneitanlega leitar hugurinn til frægrar myndar af Che Guevara fyrir kúbversku byltinguna.

„Ég ætla nú ekki að fara að ætla henni sama stall og Che Guevara. En hún mun lifa eitthvað. Hún er búin að birtast það oft. Það eru örugglega nokkrar táknmyndir sem koma upp í hugann á fólki, hvort sem þær eru tíu eða tuttugu.“ -kbs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×