Innlent

Helmingi færri krakkar reykja

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Fjögur prósent barna í tíunda bekk á Íslandi reykja.
Fjögur prósent barna í tíunda bekk á Íslandi reykja. vísir/afp
Verulega hefur dregið úr reykingum íslenskra unglinga samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar Heilsa og lífskjör skólabarna, sem lögð var fyrir í vetur.

Ársæll Már Arnarsson, prófessor við Háskólann á Akureyri og stjórnandi rannsóknarinnar, segir að árið 2010 hafi tíðni reykinga á meðal íslenskra unglinga verið með því lægsta sem gerðist í Evrópu. Samt sem áður hafa reykingarnar minnkað um helming síðan þá.

Ársæll Már Arnarsson, prófessor við Háskólann á Akureyri og stjórnandi rannsóknarinnar.Mynd/Völundur Jónsson
„Þetta er ótrúlegur árangur og með þessu áframhaldi má hreinlega gera sér vonir um að þessi aldurshópur verði fullkomlega reyklaus eftir nokkur ár,“ segir Ársæll og bætir við að þróunin sé gífurlega hröð, en fyrir 20 árum reyktu 20-25 prósent barna í þessum aldurshópi.

Í langflestum tilfellum byrjar fólk að reykja á unglingsárum eða fyrir 18 ára aldur. „Þessar niðurstöður sýna að með öflugu forvarnarstarfi fjölmargra aðila hefur tekist að lyfta grettistaki í þessu verkefni,“ segir Ársæll. 

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, tekur undir orð Árna. „Niðurstöðurnar eru afar ánægjulegar og gefa góð fyrirheit, ekki aðeins um reykingar, heldur einnig almennt um bættan lífsstíl unglinga á þessum aldri.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×