Innlent

Heildarsamkomulag á vinnumarkaði í höfn

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frá undirritun samkomulagsins í dag.
Frá undirritun samkomulagsins í dag. Vísir/Pjetur
Heildarsamtök launafólks og atvinnurekenda á almennum og opinberum vinnumarkaði skrifuðu í dag undir samkomulag um breytt vinnubrögð við gerð kjarasamninga. Með samkomulaginu á að tryggja á varanlega aukningu kaupmáttar á Íslandi á grundvelli lágrar verðbólgu, stöðugs gengis krónunnar og lægri vaxta.

Í tilkynningu segir að samkomulagið felur í sér að stofnað verði Þjóðhagsráð vinnumarkaðar, Seðlabanka og stjórnvalda og mörkuð verði sameiginleg launastefna til ársins 2018. Einnig á að stefna að því skapa nýtt samningalíkan á íslenskum vinnumarkaði sem taka eigi gildi árið 2018.

Þetta líkan á að gera ráð fyrir því að stefnt verði að jöfnun lífeyrisréttinda á almennum og opinberum vinnumarkaði, að kjarasamningar miði að því að auka kaupmátt á grundvelli stöðugs gengis og að opinberum starfsmönnum verður tryggð hlutdeild í launaskriði á almennum vinnumarkaði.

Einnig er gert ráð fyrir að svigrúm til launabreytinga verði skilgreint út frá samkeppisstöðu gagnvart helstu viðskiptalöndum og að fyrirtæki sem framleiða vöru og þjónustu til útflutnings eða í samkeppni við innflutning móti svigrúm til launabreytinga.

Samkomulagið er afrakstur af vinnu svokallaðs SALEK-hóps en eftirfarandi aðilar skrifuðu undir samkomulagið í Iðnó í dag: Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja , Samtök atvinnulífsins, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og Samninganefnd ríkisins. Samkomulagið nær til 70% launafólks sem á aðild að stéttarfélögum á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×