Handbolti

Hef lifað á sparnaðinum síðustu mánuði

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Fannar vill finna sér annað félag í Þýskalandi.
Fannar vill finna sér annað félag í Þýskalandi. fréttablaðið/vilhelm
„Ég er búinn að vera í fimm ár úti og hef náð að spara. Maður hefur verið að lifa á sparnaðinum síðustu mánuði,“ segir Fannar Friðgeirsson sem er orðinn atvinnulaus eftir að félag hans, Grosswallstadt, varð gjaldþrota. Fannar hefur ekki fengið greidd laun frá félaginu í fimm mánuði.

„Sumir hafa ekki fengið laun í lengri tíma en það en það var alltaf sagt við okkur að þetta yrði í lagi. Þetta myndi reddast. Það gekk ekki alveg eftir hjá þeim. Við trúðum þeim í lengstu lög en því miður var ekkert að marka sem þeir sögðu.“

Félagið er farið í greiðslustöðvun og leikmenn liðsins eru með lausan samning. Grosswallstadt mun hefja leik í neðstu deild en leikmenn liðsins þurfa að finna sér nýjan samastað.

„Minn umboðsmaður er á fullu að finna möguleika núna en ekkert komið inn á borð. Ég er samt bjartsýnn á að finna mér eitthvað. Ég myndi helst vilja vera áfram í Þýskalandi en ég er samt opinn fyrir öðrum löndum. Ég er minnst spenntur fyrir því að koma heim,“ segir afmælisbarnið Fannar en hann varð 28 ára í dag.

„Það er kominn júní og markaðurinn er svolítið mettaður. Þetta hefði mátt gerast fyrr. Ég tel mig hafa staðið mig ágætlega og vonandi hef ég lagt eitthvað inn á þessum fimm árum sem skilar mér samningi annars staðar.“

Leikmenn Grosswallstadt munu ekki spila lokaleik tímabilsins þar sem þeir eru ekki tryggðir lengur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×