Erlent

Hátt í þrjátíu manns létust þegar flugvél hrapaði á útimarkað

Heimir Már Pétursson skrifar
Að minnsta kosti tuttugu og sjö manns létust og tugir slösuðust þegar herþota hrapaði á markað í miðborg Arhia í norðvesturhluta Sýrlands í dag. Stuttu áður hafi flugmaðurinn varpað sprengju á miðborgina.

Að sögn vitna voru flestir hinna látnu óbreyttir borgarar. Uppreisnarmenn hafa stjórnað borginni frá því þeir náðu henni á sitt vald í maí. Sölumenn voru nýbúnir að opna bása sína þegar sprengju var varpað á miðborgina og stuttu síðar hrapaði flugvélin.

„Markaðurinn var fullur af fólki. Fólk kom til að sækja skiptimynt. Sölumenn stóðu við bása sína en nú eru allir fastir undir braki. Fólkið er allt undir rústunum. Flugvélin og eldflaugin, þetta hafnaði allt á markaðnum,“ segir ónafngreindur maður sem var á staðnum þegar flugvélin hrapaði.

Einn íbúa borgarinnar tók myndir af vettvangnum og þar má sjá að aðkoman hrikaleg. Vitni fullyrða að flugvélin hafi ekki verið skotin niður. Harðir bardagar hafa geisað á þessu svæði undanfarin misseri á milli stjórnarhersins og samtaka sem kalla sig Sigurherinn sem talin eru tengjast al Qaeda.

Eftir að stjórnarherinn missti völdin í borginni hafa verið gerðar miklar loftárásir á borgir og bæi í héraðinu sem liggur að Tyrklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×