Skoðun

Harðsvíruð ófrægingarmýta

Ingvar Gíslason skrifar
Fjaðrafokið sem þyrlast hefur upp kringum Framsóknarflokkinn hefur að formi til tvær hliðar. Önnur snertir innanflokksmál, hin hliðin snýr að umfjöllun í fjölmiðlum. Þar ber reyndar hæst greinahöfunda á vegum Fréttablaðsins. Ef lýsa ætti í fáum orðum þeirri hlið, sem að innanflokksmálum snýr, einkennist hún af veikburða forystu, ráðaleysi og klúðri. Fárra orða lýsing á skrifum tiltekinna greinarhöfunda um stefnu og störf Framsóknarflokksins rúmast í einu orði: ritsóðaskapur.

Á hvora hliðina sem maður lítur, kemur í ljós það versta sem finnst í íslenskri pólitík og umræðuháttum: agaleysi í orði og gerðum. Agaleysið er augljóst í stjórnarháttum framsóknarforystunnar í Reykjavík og agaleysi í orði, rakalausar ásakanir og ályktunarlygi einkenna skrif þeirra sem nú gera hróp að Framsóknarflokknum, gera honum upp skoðanir, viðhorf og stefnu, m.a. ýjað að samlíkingu við rasistasamtök í Evrópulöndum. Þótt Eiríki Bergmann Einarssyni sé til alls trúandi í anda Guðmundar Hálfdanarsonar, koma mér skrif Guðmundar Andra Thorssonar og Ólafs Stephensen í þá átt mjög á óvart.

Veikburða forysta Framsóknarflokksins er okkur gömlu framsóknarfólki hin mesta ömun. Við munum tímana tvenna. Þetta stórtæka framboðsklúður, sem forysta flokksins hefur gert sig bera að frá upphafi til enda, á sér enga hliðstæðu í næstum 100 ára sögu Framsóknarflokksins. Og þegar eftirleikur klúðursins er sá sem raun ber vitni, að ályktunarlygurum er lagt upp í hendurnar að skálda upp og útbreiða ófrægingarmýtu um flokkinn, þá er tímabært að flokksforystan taki við sér.

Í fyrstu lotu framboðsklúðursins sagði Óskar Bergsson af sér sem fyrsti maður á framboðslista flokksins í Reykjavík – reyndar að óþörfu. Er þá ekki tímabært að Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir sýni kjark og segi af sér sem borgarfulltrúi, enda augljós tengsl milli orða hennar og óhróðursskrifa um Framsóknarflokkinn?




Skoðun

Sjá meira


×