Fótbolti

Hannes: Við markverðirnir fáum sérútbúnar markmannstreyjur

Stefán Árni Pálsson skrifar
„Veðrið leggst bara vel í mig, við þurfum að undirbúa okkar við svona aðstæður og því gott að fá góða útiæfingu í dag,“ segir Hannes Þór Halldórsson, markvörður íslensk landsliðsins, á Kópvogsvelli í dag.

Íslenska landsliðið kom saman á sinni fyrstu æfingu fyrir umspilsleikina við Króatíu á Kópavogsvelli í dag en liðið mætir því króatíska á föstudagskvöld á Laugardalsvellinum. Þau mætast síðan aftur ytra á þriðjudagskvöldið eftir viku.

„Við erum kannski ekki mikið að velta veðrinu fyrir okkur en auðvitað verðum við að vera meðvitaðir um að aðstæður geti verið nokkuð slæmar. Það er ekki á hverjum degi sem maður spilar í snjókomu og frosti.“

„Við markmennirnir erum búnir að láta sérútbúa fyrir okkur þykkari peysur og svona, svo við verðum alltaf klárir.“

Gríðarleg eftirvænting er fyrir landsleiknum á föstudaginn og öll þjóðin stendur í raun á öndinni.

„Við vinnum vel fyrir þeirri spennu sem er út í þjóðfélaginu. Það er bara frábært að finna fyrir þessari stemmningu og stuðningi.“

„Það verður líklega töluvert mikið að gera hjá mér á föstudagskvöldið og ég er búinn að undirbúa mig vel og hef æft mjög vel undanfarið.“

Hægt er að sjá myndband af viðtalinu í spilaranum hér að ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×