Lífið

Hannar nýja línu fyrir Club Monaco

Magnea segir það ótrúlega gaman að fá svona tækifæri og vonar að það opni fleiri möguleika fyrir hana í framtíðinni.
Magnea segir það ótrúlega gaman að fá svona tækifæri og vonar að það opni fleiri möguleika fyrir hana í framtíðinni. Vísir/Þórdís Reynis
Fatahönnuðurinn Magnea Einarsdóttir mun hanna línu í nafni fatamerkisins Magnea fyrir bandaríska fatamerkið Club Monaco, undirmerki Ralph Lauren. Yfirhönnuður prjónadeildar merkisins kom til landsins fyrr á árinu í vinnuferð og setti sig í samband við Magneu áður en hún kom.

„Hún fann okkur á netinu og setti sig í samband við mig. Hún hafði heillast af okkar stíl og áherslum merkisins, bæði notkun okkar á íslensku ullinni og prjóni almennt og úr varð að okkur var boðið að hanna hliðarlínu fyrir Club Monaco undir okkar merki. Við vorum beðin að hanna línu og svo yrðu nokkrar flíkur valdar úr til framleiðslu,“ segir Magnea en línan mun heita Magnea X Club Monaco og verður seld í verslunum þeirra um allan heim.

Í kjölfarið fór hún út og kynnti línuna í höfuðstöðvum fyrirtækisins. Þeim leist svo vel á að úr varð að allir stílar voru valdir. Magnea mun fara aftur út í desember til að skoða fyrstu frumgerðir og fylgjast með mátun.

„Það mun svo vera áframhaldandi samstarf milli fyrirtækjanna þar til línan kemur út. Þetta er búið að vera mjög lærdómslíkt ferli. Club Monaco er stórt fyrirtæki og það má segja að ég hafi tekið sprett í gegnum það á meðan ég var þar. Fyrir mig er líka mjög áhugavert að fá að kynnast Bandaríkjamarkaði þar sem ég lærði í London og bý og rek fyrirtæki á Íslandi,“ segir hún.

„Það er virðingarvert að svona stórt fyrirtæki velji að vinna í samstarfi við okkur þar sem þau hefðu auðveldlega getað valið að stela einfaldlega okkar hönnun eins og tíðkast því miður í hönnunarbransanum. Einnig er þetta frábært tækifæri fyrir okkar fyrirtæki og gaman að finna fyrir því að Magnea sé að vekja athygli út fyrir landsteinana.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×