Erlent

Handteknir grunaðir um að hafa lagt á ráðin um hryðjuverk

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Þýska lögreglan handtók í morgun tvo menn sem grunaðir voru um að hafa ætlað að gera árás í verslunarmiðstöð í borginni Oberhausen, skammt frá landamærum Hollands.

Um er að ræða bræður frá Kósóvó í kringum þrítugt. Þeir eru sagðir hafa lagt á ráðin um hryðjuverk en ekki er vitað hversu langt skipulagningin var komin né hvort fleiri tengist málinu.

Lögregla hafði fengið ábendingu um að árás væri í vændum og sendi því óeinkennisklædda lögreglumenn til eftirlits í verslunarmiðstöðinni og nærliggjandi jólamarkaði. Bræðurnir voru svo handteknir í borginni Duisburg.

Hæsta viðbúnaðarstig er í gildi í Þýskalandi vegna árásarinnar í Berlín á mánudagskvöld, þar sem flutningabíl var ekið inn á jólamarkað með þeim afleiðingum að tólf biðu bana. Ekki er talið að bræðurnir, sem handteknir voru í morgun, tengist þeirri árás.

Meintur árásarmaður í Berlín hefur verið nafngreindur sem Anis Amri frá Túnis. Víðtæk leit stendur yfir af honum í Evrópu allri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×