Innlent

Handtekinn í gær grunaður um heimilisofbeldi

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Ellefu morð hafa verið framin hér á landi síðan árið 2003 sem rekja má til heimilisofbeldis.
Ellefu morð hafa verið framin hér á landi síðan árið 2003 sem rekja má til heimilisofbeldis. Vísir/Getty
Ölvaður maður var handtekinn í gær grunaður um líkamsárás en grunur leikur á að um tilfelli af heimilisofbeldi sé að ræða. Maðurinn var vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins. Ekki er fleira vitað um málið að svo stöddu.

Alþingi samþykkti nýverið lagabreytingu á almennum hegningarlögum sem gerir heimilisofbeldi refsivert samkvæmt lögum. Þessi lagabreyting kemur í kjölfar átaks sem hófst þann 12. janúar síðastliðinn. Átakið er gegn heimilisofbeldi á höfuðborgarsvæðinu og hefur skilað sér í auknum fjölda tilkynninga til lögreglu en þeim hefur fjölgað úr tuttugu á mánuði í fimmtíu.

Sjá einnig: Heimilisofbeldi vandamál á 200 heimilum á landinu

„Það er mjög jákvætt, sjálft átakið skapar ekki ofbeldi. Það sem er að gerast er að fólk hefur fengið meiri trú á kerfið, trú á það að þegar lögreglan er kölluð til þá gerist eitthvað,“ sagði Heiða Björg Hilmisdóttir, varaborgarfulltrúi Samfylkingar, í samtali við Vísi í júní. Hún hefur starfað að undirbúningi ofbeldisvarnarnefndar Reykjavíkurborgar.

Heiða segir það afar mikilvægt að ofbeldismaður sé fluttur af heimilinu en ekki fórnarlambið.

Meirihluta morða á Íslandi má til að mynda rekja til heimilisofbeldis og því er mikilvægt að grípa inn í áður en ástandið verður svo slæmt að of seint er að bregðast við. Ellefu morð hafa verið framin hér á landi sem rekja má til heimilisofbeldis frá 2003. Það eru um 60 prósent morða sem framin voru á þessu tímabili. Þetta er eitt af því sem fram kemur í bæklingnum kynlegar tölur sem gefinn er út af mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar í tilefni af 8. mars á þessu ári. 8. mars er alþjóðlegur baráttudagur kvenna fyrir friði og jafnrétti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×