Innlent

Hamborgari stoppaður í tollinum

Birta Svavarsdóttir skrifar
Fyrsti McDonald's staðurinn sem var opnaður á Íslandi í Skeifunni.
Fyrsti McDonald's staðurinn sem var opnaður á Íslandi í Skeifunni. Vísir/Vilhelm
Það eru misfurðulegar sendingarnar sem stoppa í íslenska tollinum á leið sinni inn í landið. Sem dæmi mætti nefna póstsendingu sem barst um daginn frá Ungverjalandi, en hún innihélt McDonald's hamborgara.

Einhver hugulsamur hefur greinilega ætlað að gera vel við íslenskan vin sinn, því hamborgaranum fylgdi allt tilheyrandi meðlæti, rétt eins og verið væri að afhenda hann beint til viðskiptavinar, þó óneitanlega væri borgarinn örlítið kaldur og hrakinn.

Þar sem kjötið var fulleldað ákváðu tollverðir að leyfa sendingunni að fara áfram til viðtakanda, en hver afdrif borgarans urðu eða hvernig hann bragðaðist eftir níu daga ferðalag er ekki vitað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×