Lífið

Hallgrímur náði efsta sætinu hjá Amazon

Hallgrímur Helgason hrifsaði toppsætið af Stieg Larsson hjá Amazon.
Hallgrímur Helgason hrifsaði toppsætið af Stieg Larsson hjá Amazon.
„Ég bara skil þetta ekki," segir rithöfundurinn Hallgrímur Helgason.

Bók hans, The Hitman's Guide to Housecleaning, eða 10 ráð til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp, náði efsta sætinu á vinsældalista Amazon yfir spennubækur í Kindle-rafbókarformi.

Bókin er gefin út af Amazon bæði í Kindle- og kiljuformi og kom inn á sölusíðuna á þriðjudaginn. Strax á fyrsta degi fór bókin inn á topp tíu í Kindle-búð Amazon í Englandi og um stund náði hún toppsætinu í spennusagnaflokki af Stieg Larsson, höfundi Millennium-þríleiksins. Í gær var bók Hallgríms komin niður í annað sætið.

„Þetta er eitthvað furðulegt, líka af því að bókin er í „þriller"-deild. Ég vona bara að fólk verði ekki fyrir vonbrigðum því þetta var ekki beint „þriller" þegar ég var að skrifa hana," segir Hallgrímur. Eini „þrillerinn" sem ég þekki er með Michael Jackson. Ég las einhvern tímann textann við það lag og það er eini þrillerinn sem ég hef lesið."

Að sögn Hallgríms var búið að reyna að gefa bókina út á ensku, tungumálinu sem hún var fyrst skrifuð á, í fjögur ár eða þangað til Amazon kom inn í myndina. „Maður var með hnút í maganum yfir því hvort enskumælandi fólk myndi sætta sig við að lesa ensku sem væri ekki eftir mann með ensku að móðurmáli."

Bókin hefur komið út á tíu tungumálum, nú síðast á kóresku. Kvikmyndaréttur hennar hefur einnig verið seldur til Danmerkur og hefur leikstjórinn Kasper Barfoed verið ráðinn af því tilefni. -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×