Viðskipti innlent

Hallarekstur hjá Reykjanesbæ 13 ár af síðustu 15

Ingvar haraldsson skrifar
Skuldir Reykjanesbæjar hafa margfaldast síðustu ár og á bærinn að óbreyttu ekki fyrir framtíðarskuldbindingum.
Skuldir Reykjanesbæjar hafa margfaldast síðustu ár og á bærinn að óbreyttu ekki fyrir framtíðarskuldbindingum. fréttablaðið/ernir
Að óbreyttu mun innan­ríkis­ráðu­neytið skipa fjárhaldsstjórn yfir Reykja­nesbæ á næstunni. Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga sendi Reykjanesbæ bréf í síðustu viku þar sem fram kom að nefndin teldi greiðslubyrði Reykjanesbæjar vera umfram greiðslugetu og því yrði ekki komist hjá því að leggja til við innanríkisráðherra að fjárhaldsstjórn yrði skipuð yfir bænum.

Nefndin gaf bæjarstjórn frest til dagsins í dag til að koma á framfæri athugasemdum eða frekari upplýsingum en búið er að óska eftir frekari fresti, eða fram yfir næsta bæjarstjórnarfund þann 7. júní. Verði fjárhaldsstjórn niðurstaðan mun hún hafa lokaorðið í öllum útgjöldum bæjarins og þarf ekki að halda uppi frekari starfsemi umfram það sem sagt er til um í lögum.

Skuldaviðræður hafa staðið yfir síðustu 18 mánuði án niðurstöðu. Náðst hafði samkomulag við meirihluta kröfuhafa bæjarins um afskriftir upp á 6,35 milljarða króna en ekki voru allir kröfuhafar tilbúnir að sætta sig við afskriftir. Meðal annars höfnuðu lífeyrissjóðir sem lánað hafa Reykjaneshöfn tillögu bæjarins. Enn standa þó einhver samskipti yfir milli kröfuhafa og bæjarins og ekki er loku fyrir það skotið að samkomulag náist áður en fjárhaldsstjórn verði skipuð. Markmið viðræðnanna hefur verið að koma skuldahlutfalli Reykjanesbæjar niður í 150% prósent fyrir árið 2022 en það stendur nú í 229%.

Halli hefur verið af reglulegum rekstri Reykjanesbæjarr 13 ár af síðustu 15 árum.
Áætlanir ekki samræmst rekstri

En hvers vegna er fjárhagsstaða Reykj­anesbæjar svo bagaleg? Í bréfi Eftirlitsnefndar frá því í síðustu viku var vitnað í annað bréf, sem Eftirlitsnefndin sendi Reykjanesbæ 4.?nóvember 2014 þar sem fram kom að ljóst væri að áætlanir frá árinu 2013 um að ná tökum á skuldastöðunni myndu ekki ganga eftir. „Svo virðist sem fjárhagsáætlanagerð áranna 2013 og 2014 hafi verið verulega ábótavant og ekki í neinu samræmi við rekstur sveitarfélagsins,“ segir í bréfinu. Í rekstraráætlun ársins 2013 var gert ráð fyrir að afgangur af rekstri bæjarins yrði upp á 465 milljónir króna en reyndin var tap upp á 972 milljónir króna. Þá var gert ráð fyrir 96 milljóna króna tapi í rekstraráætlun ársins 2014 en reyndin var 1,8 milljarða króna tap.

Haraldur Líndal, núverandi bæjarstjóri Hafnarfjarðar, sagði í skýrslu sem hann ritaði árið 2014 um fjármál Reykjanesbæjar að hann teldi vanda bæjarins tvíþættan, annars vegar rekstrarvanda og hins vegar skuldavanda. Aðeins einu sinni hefði verið rekstrarafgangur fyrir óreglulega liði frá árinu 2002, eða árið 2010. Samanlagður hallarekstur bæjarins nemur 15 milljörðum króna frá árinu 2003. Hins vegar væri mikill skuldavandi en bæjarfélagið skuldar 40 milljarða króna en skuldirnar námu 8 milljörðum króna árið 2002 og hafa því fimmfaldast á verðlagi hvers árs. Skuldirnar nema tæplega 2,5 milljónum króna á hvern íbúa. 

Haraldur Líndal bendir í skýrslu sinni á að veltufé frá rekstri, sem segir til um hvað sé eftir af rekstrartekjum þegar búið er að greiða öll dagleg útgjöld sveitarfélagsins, svo sem laun, rafmagn, hita og skólamat, hafi verið neikvætt 7 ár af 12 á árunum 2002 til 2013. „Ef veltufé frá rekstri er neikvætt á sveitarfélagið hvorki fyrir daglegum útgjöldum að fullu né afborgunum lána, hvað þá fé til nýframkvæmda,“ segir í skýrslunni. Það sem upp á vantar þarf að taka að láni, fjármagna með sölu eigna og/eða ganga á eigið fé.“ Samkvæmt úttektinni var fjárþörf Reykjanesbæjar á tímabilinu til helminga fjármögnuð með eignasölu og lántökum.

Búist er við að kísilver United Silicon í Helguvík muni taka til starfa á þessu ári en framkvæmdir eru í gangi. Reykjanesbær hefur lagt milljarða í rekstur Reykjaneshafnar sem er í greiðslustöðvun. fréttablaðið/vilhelm
Eignir færðar í fasteignafélag

Að hluta til stafa skuldirnar af umtalsverðum fjárfestingum sem Reykjanesbær hefur lagt í síðustu ár. Fjárfestingar Reykjanesbæjar á árunum 2002 til 2015 nema samanlagt 15,5 milljörðum króna á verðlagi hvers árs. Framkvæmdirnar hafa að stórum hluta verið í gegnum Eignarhaldsfélagið Fasteign hf. Fasteign hf. tók til starfa árið 2003 og var í eigu Reykjanesbæjar, auk fleiri sveitarfélaga, Íslandsbanka og Háskólans í Reykjavík. Reykjanesbær og önnur sveitarfélög seldu félaginu fasteignir og leigðu þær svo af því aftur. Haraldur segir í skýrslu sinni að hann telji mistök hafa verið gerð í leigusamningum við Fasteign í nokkrum tilfella en leigan var tengd við gengi erlendra gjaldmiðla og verðlag. Markmiðið með stofnun Fasteignar var að skapa stærðarhagkvæmni og sérþekkingu.

27 fasteignir í eigu Reykjanesbæjar voru seldar félaginu árið 2003 en í lok ársins 2010 voru fasteignirnar sem bærinn leigði af Fasteign orðnar 44, þar undir voru nýir skólar, leikskólar, bókasafn og íþróttahús. Önnur sveitarfélög hafa keypt fasteignir sínar út úr félaginu og er Reykjanesbær eini eigandi Fasteignar. Samkvæmt ársreikningi ársins 2014 námu skuldir félagsins tæpum 13 milljörðum króna.

Dýr bið eftir iðnaði í Helguvík

Þá hefur Reykjaneshöfn lagst í umtalsverðar fjárfestingar í Helguvík vegna iðnaðar sem vonast var til að hæfist þar, með tilheyrandi umsvifum og tekjum fyrir höfnina. Skuldir hafnarinnar nema 8 milljörðum króna og er eigið fé neikvætt um 5 milljarða króna og hefur höfnin verið í greiðslustöðvun frá því í október. Reykjanesbær hefur sjálfur lánað höfninni 3,1 milljarð í formi víkjandi láns. Reykjanesbær færði lánið niður í ársreikningi ársins 2014 að fullu þar sem óvíst er að höfnin geti greitt lánið til baka. Í viðræðum við kröfuhafa hefur Reykjanesbær meðal annars farið þess á leit að fjárhagur Reykjaneshafnar verði aðskilinn frá fjármálum Reykjanesbæjar.

Miklar lántökur og eignasala hafa staðið undir stórum hluta af rekstri og fjárfestingum Reykjanesbæjar síðustu ár.
Búist var við því að álver Norðuráls myndi rísa í Helguvík enda hófust framkvæmdir við byggingu álversins sumarið 2008. Frá árinu 2008 hefur Reykjaneshöfn lagt í fjárfestingar upp á 1,8 milljarða króna. Framkvæmdir við álverið í Helguvík hafa þó verið í biðstöðu síðustu ár, meðal annars vegna deilna um raforkuverð við HS Orku og óvissu um fjármögnun verkefnisins.

Þá var skrifað undir viljayfirlýsingu við Íslenska kísilfélagið árið 2011 sem hugðist gangsetja kísilver árið 2013. Þeim samningi var hins vegar rift þar sem fyrirtækið stóð ekki við gerða samninga. Nú er hins vegar búist við því að kísilver United Silicon taki til starfa síðar á þessu ári. Þá hefur fyrirtækið Thorsil hug á að hefja byggingu kísilvers á næstu misserum sem hæfi starfsemi árið 2018. Fyrirtækið hefur nokkrum sinnum fengið greiðslufrest framlengdan af greiðslu gatnagerðargjalda, nú síðast til 31.júlí næstkomandi.

Reykjanesbær seldi 34 prósenta hlut í HS Orku árið 2009. Greitt var fyrir hlutinn með peningum, hlut í HS Veitum og skuldabréfi, sem óvíst er að verði jafn verðmætt og búist var við.Vísir/Valli
Í tilkynningu frá Thorsil kom fram að ekki liggi allir fyrirvarar um formlegt samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA á raforkusamningi við Landsvirkjun og HS Orku fyrir og því hafi dagsetning greiðslu lóða- og hafnargjalda verið framlengd. Greiðslan nemur um 140 milljónum króna samkvæmt tilkynningunni.

Seldu orkufyrirtæki

Auk lántöku hefur rekstur fjárfestingar og afborganir lána einnig verið fjármagnaðar með eignasölu, til að mynda í orku- og veitufyrirtækjum í eigu bæjarins, sem hefur verið umdeild. Sala eigna og eignaumbreyting nemur 16 milljörðum frá árinu 2002.

Reykjanesbær seldi Geysi Green Energy 34% hluta í orkufyrirtækinu HS Orku árið 2009 fyrir upphæð sem metin var á um 13 milljarða króna. Kaupverðið var greitt með 3 milljarða peningagreiðslu, þriðjungshlut í HS Veitum sem metinn var á 4 milljarða króna og skuldabréfi að fjárhæð 6,3 milljarðar króna. Á móti keypti Reykjanesbær landsvæði og auðlindirnar af HS Orku fyrir 1,3 milljarða króna en leigði þær aftur og átti leiguverðið að hámarki að nema 90 milljónum króna á ári.

Reykjanesbær seldi skuldabréfið sem fékkst við söluna svo áfram til fjárfestingarsjóðsins ORK fyrir 3,5 milljarða króna í peningum og 500 milljónir í markaðsskuldabréfum árið 2012. Eftirstöðvar skuldabréfsins, upp á tæpa tvo milljarða króna, eru hins vegar tengdar álverði og tryggðar með bréfum í HS Orku. Árið 2014 ákvað Reykjanesbær að færa niður virði skuldabréfsins um 637 milljónir króna vegna varúðarsjónarmiða þar sem óvissa væri um raunverulegt virði skuldabréfsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×