Handbolti

Hákon aðeins einu marki frá því að jafna markametið í úrslitakeppni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hákon Daði var magnaður í úrslitakeppninni.
Hákon Daði var magnaður í úrslitakeppninni. vísir/ernir
Hákon Daði Styrmisson, vinstri hornamaður Hauka, skoraði flest mörk allra í úrslitakeppni Olís-deildar karla sem lauk í gær þegar Haukar tryggðu sér sinn ellefta Íslandsmeistaratitil með 34-31 sigri á Aftureldingu.

Hákon, sem kom til Hauka frá ÍBV í janúar, fór hamförum í úrslitakeppninni og skoraði 94 mörk í 12 leikjum, eða 7,8 mörk að meðaltali í leik. Hákon skoraði 10 mörk eða fleiri í fimm af þessum 12 leikjum.

Sjá einnig: Hákon Daði: Meira og minna allt inni hjá mér

Hákon vantaði aðeins eitt mark til að jafna metið yfir flest mörk skoruð í einni úrslitakeppni. Valdimar Grímsson og Róbert Julian Duranona eiga metið en þeir skoruðu 95 mörk fyrir KA á 10. áratug síðustu aldar.

Valdimar skoraði 95 mörk í 11 leikjum fyrir KA 1995 og Duranona 95 í níu leikjum fyrir sama lið ári seinna. Þá var Hákon ekki enn kominn í heiminn en hann er fæddur í maí 1997.

Adam Haukur skoraði 32 mörk í Schenker-höllinni í úrslitaeinvíginu.vísir/ernir
Samherji Hákons hjá Haukum, Adam Haukur Baumruk, skoraði næstflest mörk í úrslitakeppninni í ár, eða 77 mörk. Mikk Pinnonen, leikmaður Aftureldingar, skoraði 65 mörk og Eyjamaðurinn Theodór Sigurbjörnsson gerði 60 mörk í aðeins sex leikjum, eða 10 mörk að meðaltali í leik.

Sjá einnig: Haukar langbestir á þessari öld

Adam Haukur var svo markahæstur í sjálfum lokaúrslitunum. Þessi öfluga skytta skoraði 39 mörk í leikjunum fimm, þ.á.m. 15 mörk í þriðja leiknum sem er met í lokaúrslitum.

Adam Haukur endurtók þar með leik föður síns, Petr Baumruk, frá 1994 en hann skoraði þá flest mörk (24) í úrslitaeinvígi Hauka og Vals.

Mikk Pinnonen skoraði 65 mörk í úrslitakeppninni.vísir/anton
Markahæstir í úrslitakeppninni 2016:

Hákon Daði Styrmisson, Haukum - 94/34

Adam Haukur Baumruk, Haukum - 77

Mikk Pinnonen, Aftureldingu - 65

Theodór Sigurbjörnsson, ÍBV - 60/21

Janus Daði Smárason, Haukum - 59/1

Sveinn Aron Sveinsson, Val - 52/14

Árni Bragi Eyjólfsson, Aftureldingu - 52/16

Jóhann Gunnar Einarsson, Aftureldingu - 52/18

Markahæstir í úrslitaeinvíginu 2016:

Adam Haukur Baumruk, Haukum - 39

Mikk Pinnonen, Aftureldingu - 36

Hákon Daði Styrmisson, Haukum - 34/11

Árni Bragi Eyjólfsson, Aftureldingu - 28/4

Janus Daði Smárason, Haukum - 26




Fleiri fréttir

Sjá meira


×