Innlent

Hagsmunahópar fjármagna Evrópusambandsbaráttuna

Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir
Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir

Já og nei samtökin íslensku, gagnvart ESB-aðild landsins, fjármagna sig að mestu leyti með framlögum hagsmunahópa í atvinnulífinu.

Mestu fjárframlögin til Heimssýnar, sem berst gegn inngöngu, koma úr sjávarútvegi og landbúnaði. Sterkara Ísland, sem berst fyrir inngöngu að gefnum góðum aðildarsamningi, fær mest frá iðnfyrirtækjum, þjónustu- og útflutningsgreinum.

Heimssýn hefur ríflega þrefalt fleiri félaga á bak við sig.

Þetta er byggt á upplýsingum frá fulltrúum samtakanna, þeim Páli Vilhjálmssyni fyrir Heimssýn og Bryndísi Ísfold Hlöðversdóttur fyrir Sterkara Ísland.

„Þetta eru ekki miklir peningar. Veltan 2009, sem var stökk upp á við frá fyrra ári, var sex til átta milljónir, minnir mig. Ég myndi giska á að frá atvinnufyrirtækjum kæmi um sextíu til sjötíu prósent og afgangurinn framlög einstaklinga,“ segir Páll Vilhjálmsson.

Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir segir að velta Sterkara Íslands (SÍ) liggi ekki alveg fyrir, þar sem starfsemi félagsins hafi ekki verið gerð upp enn þá. En síðan SÍ var stofnað í október 2009 hafi það eytt um 4,9 milljónum: „Af þeim kostnaði hafa íslenskir lögaðilar greitt um níutíu prósent en einstaklingar um tíu prósent. Félagið er skuldlaust.“

Bryndís Ísfold tekur fram að félagið hafi ekki fengið neina fjárstyrki frá Evrópusambandinu sjálfu, eins og andstæðingar aðildar hafi haldið fram.

Páll segir að félagar í Heimssýn, sem hefur starfað frá 2002, séu í kringum 3.500 talsins en Bryndís Ísfold að félögum SÍ hafi fjölgað úr um 400 og í ríflega þúsund síðan í sumar sem leið.

Þess skal getið að samtökin Sterkara Ísland eru eins konar regnhlífarsamtök og innan þeirra eru önnur og eldri félög, hlynnt aðild að ESB.

Í blaðinu hefur áður komið fram að báðar hreyfingarnar njóta ýmiss konar stuðnings frá evrópskum systursamtökum, sér í lagi norskum. klemens@frettabladid.is

Páll Vilhjálmsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×