Viðskipti innlent

Hagnaður Landsvirkjunar dregst saman um tæplega helming

Sæunn Gísladóttir skrifar
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir tekjur aðallega lækka vegna lægra álverðs.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir tekjur aðallega lækka vegna lægra álverðs. Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Hagnaður Landsvirkjunar á fyrstu sex mánuðum ársins nam 34,8 milljónum dollara, jafnvirði 4,2 milljarða króna, samanborið við 63,9 milljónir dollara, 7,5 milljarða króna (á núverandi gengi) á sama tímabili árið áður.

Rekstrartekjur námu 206,9 milljónum dollara, 25,2 milljörðum króna og lækkuðu um 4,1 prósent frá sama tímabili árið áður.

EBITDA nam 155,2 milljónum dollara, 18,9 milljörðum króna. EBITDA hlutfall er 75 prósent af tekjum, en var 78,5 prósent á sama tímabili í fyrra.

Nettó skuldir lækkuðu um 39,4 milljónir dollara (4,8 milljarða króna) frá áramótum og voru í lok júní 1.946 milljónir dollara, 237,4 milljarðar króna.

Handbært frá rekstri nam 15,1 milljarði króna sem er 15,4 prósent lækkun frá sama tímabili árið áður.

Hörðar Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir í tilkynningu að afkoman sé góð miðað við krefjandi ytra umhverfi. Hann segir tekjur lækka aðallega vegna lækkandi álverðs.  „Árshlutinn var sá fjórði besti frá upphafi. Hreinar skuldir halda áfram að lækka, á sama tíma og bygging nýrra virkjana stendur yfir, sem er til vitnis um traustan grunnrekstur og sjóðsmyndun.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×