Erlent

Hafna hugmynd Pútín um þjóðaratkvæðagreiðslu í Úkraínu

Samúel Karl Ólason skrifar
Úkraínskir sérsveitarmenn í austurhluta Úkraínu.
Úkraínskir sérsveitarmenn í austurhluta Úkraínu. Vísir/AFP
Hvíta húsið hafnaði í dag hugmynd Vladimir Pútíns, forseta Rússlands, um að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla í austurhluta Úkraínu um framtíð héraðsins. Hvort það tilheyri Úkraínu eða Rússlandi.

Hugmyndin kom upp á fundi þeirra í Helsinki í byrjun vikunnar, samkvæmt sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum.



Talsmaður þjóðaröryggisráðs Donald Trump sagði nú í kvöld að samkomulag Bandaríkjanna og Úkraínu varðandi átökin í landinu fælu ekki í sér þjóðaratkvæðagreiðslu á svæðinu og sagði hann sömuleiðis að slík atkvæðagreiðsla yrði með öllu ólögmæt.

Þá tilkynnti Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna í kvöld að til stæði að veita yfirvöldum Úkraínu 200 milljónir dala til varnarmála. Fjármagninu er ætlað að bæta samskiptaleiðir herafla Úkraínu, hreyfanleika, læknaþjónustu og að kaupa nætursjónauka fyrir hermenn, samkvæmt umfjöllun CNN.



Átökin í Úkraínu hófust í apríl 2014, skömmu eftir að Rússar sendu hermenn til Krímskaga og innlimuðu svæðið af Úkraínu. Rússar hafa ítrekað verið sakaðir um að styðja aðskilnaðarsinnana með vopnum, hermönnum og jafnvel beinni þátttöku í átökum í Úkraínu.

Rússar hafa ávalt neitað þessum ásökunum, þrátt fyrir sterkar sannanir gegn þeim. Þeir hafa þó viðurkennt að rússneskir hermenn hafi barist í Úkraínu en segja þá hafa farið til Úkraínu sem sjálfboðaliða og jafnvel hafa verið í fríi frá hernum.

Minnst tíu þúsund hafa dáið í átökunum og um 24 þúsund hafa særst.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×