Lífið

Hafdís með plötu og barn í maganum

Tónlistarkonan Hafdís Huld á von á sínu fyrsta barni í sumar en hún er einnig að undirbúa plötu með vögguvísum sem kemur út á svipuðum tíma.
Tónlistarkonan Hafdís Huld á von á sínu fyrsta barni í sumar en hún er einnig að undirbúa plötu með vögguvísum sem kemur út á svipuðum tíma. Mynd/Jasonsheldon
„Ég viðurkenni að ég hef verið hressari en er öll að skána núna. Ég var frekar slöpp á tímabili," segir tónlistarkonan Hafdís Huld sem er komin rúma fjóra mánuði á leið með sitt fyrsta barn og á því von á sér í byrjun júlí.

Barnsfaðir Hafdísar er tónlistarmaðurinn Alisdair Wright og eru þau í óða önn að flytja í nýtt hús í Mosfellsdal. „Maður verður að koma sér almennilega fyrir áður en erfinginn kemur í heiminn. Þetta er flott hús með risa garði. Það er í nógu að snúast þessa dagana og því gott að ég er að hressast."

Hafdís er ekki viss hvort hún ætli að fá að vita kynið á frumburðinum en ef svo er muni hún halda því leyndu. Ásamt því að vera á fullu í flutningum ætlar Hafdís að halda tónleika í tengslum við Safnanótt en hún kemur fram ásamt Wright á Gljúfrasteini í kvöld klukkan 21.

„Ég er heppin ef ég næ að koma mér úr málningargallanum fyrir tónleikana. Það er alltaf meira mál en maður heldur að flytja," segir Hafdís og lofar heimilislegu andrúmslofti á Gljúfrasteini í kvöld.

„Ég er að vinna að nýrri plötu með vögguvísum og tek nokkur lög af henni í kvöld. Það hittir svo á að platan kemur út í byrjun sumars, eða á svipuðum tíma og barnið kemur í heiminn. Ég get ekki sagt að við höfum skipulagt það þannig en það hittir einstaklega vel á." -áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×