Enski boltinn

Hættur á samskiptamiðlunum til þess að einbeita sér að fótboltanum

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Jose Enrique í síðasta leik sínum með Liverpool gegn Bolton.
Jose Enrique í síðasta leik sínum með Liverpool gegn Bolton. Vísir/Getty
Spænski bakvörðurinn Jose Enrique, leikmaður Liverpool, fór hvergi í félagsskiptaglugganum í ár þrátt fyrir að knattspyrnustjóri Liverpool, Brendan Rodgers, hafi tilkynnt honum að tækifæri hans í vetur yrðu af skornum skammti.

Enrique sem gekk til liðs við Liverpool frá Newcastle fyrir fjórum árum fyrir sjö milljónir punda hefur lítið leikið undir stjórn Rodgers hjá Liverpool en hann var fyrsti kostur í stöðunni undir stjórn Kenny Dalglish. Lék hann 78 leiki fyrir Liverpool fyrstu tvö ár sín hjá félaginu en hann hefur aðeins leikið átján leiki undanfarin tvö ár.

Hefur hann verið töluvert meiddur á þessum tíma og eytt miklum tíma á samskiptamiðlum, aðdáendum Liverpool til mikils ama. Eftir að hann tilkynnti að hann myndi ekki fara frá Liverpool í þessum félagsskiptaglugga voru stuðningsmenn Liverpool fljótir að herja á hann á miðlunum sem leiddi til þess að hann lokaði Twitter- og Instagram aðgangi sínum.

„Ég hélt að áhorfendum þætti gaman að sjá aðra hlið á lífi fótboltamanna en aðdáendur liðsins eru mjög óánægðir virðist vera. Fyrir vikið ákvað ég að loka Instagram og Twitter-aðgöngum mínum. Ég mun einbeita mér að því að spila fótbolta og sanna mig á ný.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×