Lífið

Hætti á Facebook og tilkynnti alþjóð í Fréttablaðinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
"Við vonumst til að ljóðið geti notið sömu virðingar og aðrar listgreinar að því leyti að fólk sé tilbúið að opna budduna vegna þess,“ segir Bjarki.
"Við vonumst til að ljóðið geti notið sömu virðingar og aðrar listgreinar að því leyti að fólk sé tilbúið að opna budduna vegna þess,“ segir Bjarki. Vísir/GVA
„Ykkur sem saknið mín af vinalistanum á Facebook vil ég fullvissa um að ég hef hvorki fyrst við ykkur né blokkað, heldur einungis sagt upp aðgangi mínum að samfélagsmiðlinum, a.m.k. í bili. Ég elska ykkur samt öll.“

Svona hljóðar smáauglýsing í Fréttablaðinu í dag sem Bjarki Karlsson birtir. Auglýsingin hefur vakið mikla athygli og margir velt fyrir sér hvort um sé að ræða steggjun, grín eða þá hvort Bjarki sé raunverulega hættur á Facebook. Bjarki útskýrir málið í samtali við Vísi.

Spurður hvort hann hafi blokkað fólk

„Mig grunaði að þetta gæti vakið athygli,“ segir Bjarki hlæjandi en málið er ekki flóknara en svo að hann hefur sagt skilið við Fésbókina.

„Fólk kemur og spyr hvort ég sé búinn að blokka það,“ segir Bjarki sem kvaddi Facebook fyrir nokkrum vikum. Eðli málsins samkvæmt sést hann ekki lengur á vinalistum fólks. 

Tilkynningin úr Fréttablaði dagsins.
Ekki er hægt að birta tilkynningu þess efnis að maður sé hættur á Facebook þegar maður er hættur á Facebook og greip Bjarki því til þessa ráðs.

„Í gamla daga birtu menn stundum yfirlýsingar í smáauglýsingum. Þá voru menn yfirleitt að biðjast afsökunar á orðum sem þeir létu falla fullir,“ segir Bjarki. Þetta sé líklega það eina sem standi til boða í nútímasamfélagi fyrir utan að fara aftur á Facebook til að láta vita.

Fyrsta skáldsaga Steinunnar ástæðan

Hann segist ekki hafa fengið mikil viðbrögð við auglýsingunni. Fólk eigi ekki jafnauðvelt um vik að hafa samband við sig.

„Það getur það ekki. Ég er ekki á Facebook!“

Bjarki bætir þó við að hann sé reyndar í símaskránni ef mikið liggi við undir starfsheitinu „vinnur með orð“ en það kunni bara svo fáir á hana lengur.

Aðspurður hvers vegna hann hafi sagt skilið við Facebook er ástæðan einföld:

„Ástæðan er fyrsta skáldsaga Steinunnar Sigurðardóttur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×